föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró leggur til 50.000 tonna viðbót við loðnukvótann

3. mars 2008 kl. 12:49

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur verið við loðnurannsóknir fyrir Suðaustur- og Austurlandi frá því að mælingum lauk vestan við Ingólfshöfða þann 27. febrúar. Á svæðinu austan við Ingólfshöfða mældist loðna einkum í Lónsdjúpi, Litladýpi og á Papagrunni. Á öðrum svæðum sem skoðuð voru fannst einungis lítilsháttar magn. Samtals mældust um 56 þús. tonn af loðnu austan við Ingólfshöfða þar af kynþroska loðna rúm 50 þús. tonn. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Í ljósi þess að umrædd loðna er langt austan við það svæði sem mælt var dagana 25.-27. febrúar og var forsenda ráðgjafar sem veitt var þann 27. ferbrúar, hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að aflamark á loðnuvertíðinni 2007/2008 verði aukið um 50 þúsund tonn, segir í frétt frá stofnuninni.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur nú lokið loðnuleit og mælingum fyrir Suðaustur- og Austurlandi og mun halda vestur um og sinna rannsóknum vestast á veiðisvæðinu sem nú er út af Krísuvíkurbjargi. Í framhaldi af því mun skipið sinna rannsóknum á botnfiskum en jafnframt kanna svæðið fyrir sunnanverðum Vestfjörðum ef vera kynni að loðna kæmi í umtalsverðu magni þá leiðina til hrygningar.