sunnudagur, 18. mars 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hagnaðurinn aldrei verið meiri

Guðsteinn Bjarnason og S
19. október 2017 kl. 12:22

Frá Sjávarútvegsdeginum 2017 í Hörpu þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hélt erindi. MYND/DELOITTE

Þótt tekjur í sjávarútvegi hafi dregist saman um 26 milljarða frá 2015 til 2016 varð hagnaðurinn engu að síður 55 milljarðar, skuldir halda áfram að lækka og fjárfestingar eru miklar.

Staða íslensks sjávarútvegs er sterk en hefur engu að síður þyngst nokkuð á allra síðustu árum. Á síðasta ári drógust tekjur greinarinnar saman um 26 milljarða, eða níu prósent, heildaraflinn dróst saman um 19 prósent og verðvísitala sjávarafurða í íslenskri mynt dróst saman um 6,4 prósent.

Þetta kom fram í kynningu á niðurstöðum gagnagrunns Deloitte um afkomu íslensks sjávarútvegs 2016, sem haldin var á Sjávarútvegsdeginum 2017 í Hörpu á þriðjudag. Gagnagrunnurinn nær, eins og á síðasta ári, til 91 prósents fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi, þannig að hann þykir gefa nokkuð nákvæma mynd af stöðu greinarinnar.

Það var Jónas Gestur Jónasson, endurskoðandi og meðeigandi í Deloitte, sem kynnti niðurstöðurnar, en ávörp fluttu einnig Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins.

Jónas nefndi að Fiskistofa hafi nýlega birt athyglisverðar upplýsingar um fjölda fyrirtækja með aflahlutdeild, en þar kemur fram að frá því að frá fiskveiðiárinu 2005 til 2006 þar til á nýbyrjuðu fiskveiðiári hafi íslenskum útgerðum með aflahlutdeild fækkað úr 946 í 382.

„Það er engin smá fækkun á tólf, þrettán ára tímabili,“ sagði Jónas.

Hann segir að gera megi ráð fyrir áframhaldandi fjárfestingum og samþjöppun í greininni muni einnig halda áfram. Framlegðin hafi aukist á síðustu áratugum og víða hafi verið hagrætt í greininni. Sú þróun muni eflaust halda áfram, enda þurfi íslenskur sjávarútvegur að vera samkeppnishæfur við önnur lönd.

Skuldirnar vel viðráðanlegar
Gagnagrunnurinn sýnir að EBIDTA íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi lækkað um 15 milljarða á síðasta ári. Hún var 26% árið 2015 en fór niður í 22 prósent 2016, en EBIDTA er skammstöfun sem stendur fyrir rekstrarhagnað fyrirtækja áður en fjármagnskostnaður, skattar og afskriftir hafa verið dregin frá.

Aflasamdráttur upp á 19 prósent skýrist nánast eingöngu af loðnubresti, en veitt magn af loðnu 2016 var einungis rúmur fjórðungur af veiddu magni 2015.

Hagnaður ársins 2016 varð 55 milljarðar, eða jafn hár og árið 2013 og hefur hann aldrei orðið meiri.

„Þess má þó geta að gengishagnaður lána af þessum 55 milljörðum er sextán milljarðar, söluhagnaður eigna er um 9 milljarðar og lánaleiðrétting 4 milljarðar,“ útskýrði Jónas. Samtals eru þessir liðir 29 milljarðar þannig að ef þeir eru dregnir frá varð hagnaðurinn í sjávarútvegi 32 milljarðar á árinu.

Heildarskuldir greinarinnar hafa síðan lækkað um 175 milljarða frá árinu 2009 og voru í lok árs 2016 komnar niður í 319 milljarða. Skuldir sem hlutfall af EBIDTA hafa einnig farið hratt lækkandi frá árinu 2008, en þetta hlutfall hækkaði á árinu 2016 og var orðið 5,7 í árslok vegna lækkunar á EBIDTU.

„Það var mikið talað um skuldir sjávarútvegs á fyrstu árunum eftir hrun en eins og sjá má eru þær nú vel viðráðanlegar,“ sagði Jónas.

Jafnvægi komið á lántökur
Síðastliðin átta ár hafa afborganir umfram nýjar langtímaskuldbindingar numið samtals 101 milljarði. Árið 2016 urðu ný langtímalán hins vegar hærri en afborganir, og er það í annað skiptið á þessu tímabili sem það gerist.

„Þessi mikla niðurgreiðsla á skuldum hafði sín áhrif á fjárfestingar á fyrri hluta tímabilsins, en nú virðist vera komið jafnvægi á þessar niðurgreiðslur og ný lán.“

Fjárfestingar í greininni voru um 22 milljarðar árið 2016 og hafa verið 25 milljarðar að meðaltali á árunum 2014 til 2016. Jónas sagði að hjá Deloitte hafi menn talið eðlilegt að hún sé í kringum 20 milljarða á ári að jafnaði.

Þá lækkuðu arðgreiðslur milli ára. Þær urðu 11,5 milljarðar árið 2016 sem er um 25 prósent af hagnaði ársins 2015. Bein opinber gjöld sjávarútvegsfélaga voru síðan 19 milljarðar vegna ársins 2016, og skiptast þau þannig að 7,7 milljarðar fóru í tekjuskatt, 6,4 milljarðar í veiðigjöld og 5,0 milljarðar í tryggingagjald.

Ímyndarvandi sjávarútvegs
Þorsteinn Már gerði grein fyrir framlagi sjávarútvegsfyrirtækja til samfélagsins út frá sjónarhóli síns fyrirtækis. Fyrst af öllu nefndi hann mikilvægi þess að greinin sé kynnt út á við með raunsönnum hætti. Ef ætti að takast að fá ungt fólk til þess að starfa í greininni sé þetta lykilatriði. Ein birtingarmynd þessa væri sá fjöldi sem menntar sig í grunnfögum sjávarútvegsins – skipstjórn og vélstjórn en að hans mati ættu, ef vel ætti að vera, um þúsund manns að sitja á skólabekk í þessum námsgreinum á hverjum tíma.

„Við ættum að eiga vel menntað fólk um allan heim með þennan bakgrunn, því þar eru spennandi tækifæri en það er því miður ekki raunin,“ sagði Þorsteinn en samtals stunda um 270 manns nám í þessum greinum á síðasta ári. Ímynd sjávarútvegsins sé, samanborið við flugrekstur eða tölvunarfræði, með þeim hætti að hún vekur ekki áhuga, en á sama tíma séu alþjóðaviðskipti helsta áhugasvið ungs fólks þegar það sé spurt hvar það vilji starfa í framtíðinni.

„Á sama tíma verða starfsmenn Samherja á haustmánuðum í 26 löndum, en íslenskur sjávarútvegur er að flytja út fiskafurðir fyrir 235 milljarða. Árið 2016 seldi Samherji fisk til 55 landa. Fyrstu vikuna í september og þá fyrstu í október þá áttum við fisk í 137 flugvélum sem fóru til 22 ágangastaða. Þegar talað er um alþjóðaviðskipti þá lýsir þetta vel hvar við stöndum hvað það varðar,“ sagði Þorsteinn.

Risar
Þorsteinn ræddi stöðu íslensks sjávarútvegs með hliðsjón af laxeldi Norðmanna. Það er staðreynd að verðið á heilum laxi miðað við heilum þorski hefur þróast með afar ólíkum hætti. Verð á norskum eldislaxi hefur um langt skeið verið um þrisvar sinnum hærra en á villtum þorski, að meðaltali.

Af hverju, spurði Þorsteinn. Stöðugleiki í afhendingu er eitt og stöðug vöruþróun annað, sem beinist að neytendum. Þörfum neytandans er sinnt og hann getur treyst því að afhendingaröryggi þeirra gæða sem hann fer fram á muni standa.

Í þessu samhengi ræddi Þorsteinn um samkeppnina sem íslensk fyrirtæki mæta – en samkeppnisaðilarnir stækka stöðugt – þeir stærstu stækka hratt. Marine Harvest, norski laxeldisrisinn, velti í fyrra um 500 milljörðum króna og slátruðu 380.000 tonnum af laxi. Það er helmingi meiri velta en hjá öllum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum samanlagt. Stærðirnar eru ævintýralegar – í gegnum eitt af reykhúsum Marine Harvest í Póllandi fara 80.000 tonn af laxi á ári. Espersen, hvítfiskvinnsla sem selur sinn þorsk með laxi frá Marine Harvest, fer með 80.000 tonn af þorski á ári í gegnum eina af sínum verksmiðjum, en eiga margar í Póllandi, Litháen, Rússlandi og Víetnam.

Pólitísk óvissa
„Bakkafrost í Færeyjum byggðu nýja verksmiðju og sameinuðu þar sjö verksmiðjur í eina í 20.000 fermetra húsnæði. Ég ræði þetta hér af því að viðskiptavinirnir okkar eru alltaf að verða stærri og stærri – innkaupadeildir stórmarkaða vilja ekki versla við marga. Þess vegna hefur þetta þróast í þessa áttina,“ sagði Þorsteinn en nefndi að Samherji er að fjárfesta í nýrri hátæknivinnslu á Dalvík, auk þess sem fjárfest er í nýjum skipum og nýrri vinnslutækni frá Íslandi.

Fundarmenn tóku þó eftir þeim fyrirvara sem Þorsteinn setti við þessi áform um uppbyggingu hátæknivinnslunnar. Það gerði hann í beinu framhaldi af þeim hluta erindisins sem fjallaði um álögur og kostnað sem fyrirtæki eins og Samherji ber á Íslandi, og fór ekki framhjá neinum það óþol sem Þorsteinn hefur gagnvart umræðunni í landinu um að sjávarútvegurinn leggi lítið til samfélagsins – og eigi að greiða meira. Varla er ofsagt að andi pólitískrar óvissu og komandi Alþingiskosninga hafi svifið yfir á fundinum, og mætti tiltaka fleira en erindi Þorsteins í því samhengi.

Eins og Fiskifréttir hafa greint frá þá greiddi Samherji og starfsmenn fyrirtækisins 6,8 milljarða til hins opinbera á Íslandi árið 2016. Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu samtals 3,1 milljarði. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu 2,4 milljarða í staðgreiðslu af launum. Tekjur Samherja hf., sem er samstæða félaga sem flest starfa á sviði sjávarútvegs, hérlendis og erlendis, námu um 85 milljörðum króna og var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 17 milljarðar króna.

Samfélagsspor Samherja – en þar eru meðtaldir helstu skattar og gjöld – var 7,5 milljarðar króna.

Framtíðin
„Ég segi að við stöndum okkur ótrúlega vel í íslenskum sjávarútvegi, en saman þurfum við að búa til einhverja framtíðarsýn með stjórnvöldum um hvernig á bláa hagkerfið á að vera, og hvernig ætlum við að keppa, við Noreg svo dæmi sé tekið. [...] Þar í landi er umræðan öll á jákvæðum nótum, og við þurfum að komast út úr þessari umræðu að við sköpum ekkert, gerum ekkert og skiljum engin verðmæti eftir,“ sagði Þorsteinn.

Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur hjá SA, kom einnig víða við í sínu erindi og ræddi meðal annars fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi sem hefur aukist mikið, einkum á síðustu tveimur árum

„Sem hlutfall af tekjum hefur fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi verið svona ríflega tíu prósent. Og það helst allt í hendur við aukna verðmætasköpun og aukna framleiðni í íslenskum sjávarútvegi. Til að geta aukið verðmætasköpun og framleiðni verðum við að ráðast í fjárfestingar,“ sagði hún.

Hún sagði stöðu þjóðarbúsins gjörbreytta frá árunum í kringum hrun. Útflutningsgreinarnar haf verið drifkraftur hagvaxtar og uppsveiflan nýtt til að greiða niður skuldir. Afar mikilvægt sé að varðveita þá stöðu og þá þurfi útflutningstekjur að vaxa í takt við vöxtinn í hagkerfinu.

„Ef við gefum okkur þá einföldu forsendu að meðalhagvöxtur hér á næstu 20 árum verði 3 prósent, þá þarf útflutningur okkar eða útflutningsverðmæti að vaxa um þúsund milljarða króna á næstu 20 árum. Eða með öðrum orðum um 50 milljarða á hverju ári.“