mánudagur, 25. mars 2019
 

Gert hlé á kolmunnaveiðum að sinni

Síldarvinnslan hefur tekið á móti 39.674 tonnum af kolmunna til vinnslu það sem af er vertíð. Til Neskaupstaðar hafa borist 26.544 tonn og til Seyðisfjarðar 13.130 tonn.

Breskir sjómenn sakaðir um stórfellt brottkast

Enginn undirmálsfiskur reyndist í aflanum. Talið að um 7.500 tonnum af smáþorski hafi verið hent í sjóinn við veiðar í Norðursjó á síðasta ári.

Sextíu prósent smábáta aðstöðulausir

Faxaflóahafnir gerðu skoðanakönnun meðal smábátaeigenda og gefa til kynna vilja til efla smábátaútgerð og bæta hafnaraðstöðu.

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.


TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi leggur niður stöðu öryggisstjóra

Guðjón Guðmundsson
9. nóvember 2018 kl. 16:00

Snæfríður Einarsdóttir. MYND/GUGU

Var liður í áherslu á öryggismál

Staða öryggisstjóra hjá HB Granda hefur verið lögð niður. Stofnað var til stöðunnar fyrir tveimur árum og var liður í aukinni áherslu fyrirtækisins á öryggismál. Snæfríður Einarsdóttir gegndi stöðunni en hún lét af störfum í september síðastliðnum. Flest stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í landinu eru með öryggisstjóra innan sinna raða.

gugu@fiskifrettir.is

Fiskifréttir fjölluðu um öryggismál hjá HB Granda fyrr á þessu ári. Þegar Snæfríður var ráðinn voru öryggisstjórar einungis hjá Samherja og Síldarvinnslunni. Síðan fjölgaði þeim og voru öryggisstjórar hjá flestu stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum í fullu starfi eða meðfram öðrum störfum, þ.e.a.s. auk HB Granda, Brim, Vísi, FISK Seafood, Samherja, Síldarvinnslunni á Neskaupstað, Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, Ísfélaginu og Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Nú hefur staðan verið lögð niður hjá HB Granda. Snæfríður sagði í samtali við Fiskifréttir fyrr á árinu að hún tæki undir þau orð Hilmars Snorrasonar, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, að innan fárra ára yrði slysalaust um borð í skipum. Það væri gerlegt en að sama skapi þyrftu þá allir að vera mjög vakandi fyrir nýjum hættum samfara nýrri tækni. Áhættumat væri í öllum skipum HB Granda en sum þeirra þörfnuðust uppfærslna. Snæfríður sagði að slysatíðni hefði líka lækkað í landvinnslunni en að þar mætti einnig gera betur. Markmiðið væri að gera vinnsluna að slysalausum vinnustað og það væri raunhæft markmið. Mikið væri í húfi, janft fyrir starfsfólkið sjálft og fyrirtækið. Með hverjum starfsmanni sem væri frá vinnu vegna slyss missti fyrirtækið reynslu og þekkingu.

Kom ekki á óvart

Snæfríður segir í samtali við Fiskifréttir að ákvörðunin um að leggja stöðuna niður hafi ekki komið sér ekki á óvart. „Það eru komnir nýir eigendur og önnur nálgun og þú verður að ræða það við þá hvort ekki sé lengur ástæða til þess að leggja áherslu á öryggismál. Heilt yfir eru breyttar áherslur og nýir stjórnendur eflaust enn að móta sína stefnu. Ég myndi þó alls ekki segja að allt mitt starf hafi verið unnið fyrir gýg. Nú er það bara hlutverk þeirra sem eftir eru að halda því starfi áfram. En það var ekki ráðinn annar öryggisstjóri. Staðan var lögð niður. Ég hef enga trú á því að málaflokknum verði ekki sinnt heldur verði honum sinnt á annan hátt,“ segir Snæfríður.

Samstarf var hafið milli Snæfríðar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að gera öryggishandbók fyrir allan fiskiskipaflotann. Hún sleit sig út úr því samstarfi þegar hún hætti störfum hjá HB Granda. Sú vinna var komin töluvert áleiðis og enn er unnið að því.

Veruleg fækkun slysa

Veruleg fækkun varð á slysum, jafnt á sjó sem á landi, hjá HB Granda á árinu 2017 sem eflaust má rekja að hluta til til starfs öryggisstjóra. Fyrirsjáanlegt er að draga mun úr slysum í íslenska fiskiskipaflotanum samhliða endurnýjun hans. Ekkert slys varð til að mynda í Venusi NS, nýju uppsjávarskipi HB Granda, árin 2016 og 2017.

Snæfríður heyrði beint undir forstjóra. Ekki er ljóst hvernig fyrirkomulag öryggismála verður háttað nú þegar hún hefur látið af störfum. Það var með þeim hætti að í öllum skipum og starfsstöðum HB Granda voru öryggisnefndir og Snæfríður var fulltrúi yfirstjórnar í þeim nefndum. Nefndinar innan landvinnslunnar voru fjórar en auk þess hafði hvert skip sína nefnd, sjö talsins. Lögbundið er að halda fjóra fundi að lágmarki á ári og því til viðbótar eru haldnir rýnisfundir ef slys verða. Sama skylda á ekki við um fundarhöld á skipunum en þar er bundið í lög að halda í það minnsta tólf æfingar á ári.

Æfingarnar snúast að miklu leyti um virkjun neyðaráætlana við atburði eins og strand eða ef maður fer fyrir borð. Í uppsjávarskipunum Venusi og Víkingi, er fjarlækningabúnaður. Með honum getur áhöfnin sett sig í beint samband við lækni. Noktun fjarlækningabúnaðarins er æfð reglulega. Ekki hefur enn reynt á notkun búnaðarins við raunverulegar aðstæður. Með honum má meðal annars mæla púls og súrefnismettun og berast upplýsingar beint á skjá hjá lækninum í landi sem gefur til baka leiðbeiningar, t.a.m. ef gera þarf að sárum.