mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

HB Grandi með 30% úthafskarfakvótans

13. maí 2009 kl. 12:23

Úthafskarfaveiðar íslenskra skipa á Reykjaneshrygg eru enn ekki hafnar að heitið geti. Bræla hefur verið á miðunum undanfarna daga en reynt verður á ný nú seinni hluta þessarar viku, samkvæmt þeim upplýsingum sem Fiskifréttir fengu hjá Birki Hrannari Hjálmarssyni hjá HB Granda í dag.

Útgefinn úthafskarfakvóti íslenskra skipa er 15.166 tonn, þar af er hlutur HB Granda 4.621 tonn eða um 30% af heildarkvótanum. Næstmestan kvóta hefur FISK Seafood eða 2.489 tonn (16%) og þar á eftir kemur Samherji með 2.293 tonn (15%). Alls eru þessi þrjú fyrirtæki því handhafar 61% heildarkvótans.

Að sögn Birkis eru nokkur fjöldi erlendra skipa á úthafskarfamiðunum töluvert langt frá íslensku lögsögumörkunum eða í reit sem afmarkast af 30. og 31. gráðu vestur og 59.-60. gráðu norðurs.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum fór einn skipa HB Granda, Þerney RE, á miðin á dögunum langt utan landhelgismarkanna en hafði lítið sem ekkert upp úr krafsinu.