sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hefur meira en tvöfaldast að umfangi

8. september 2017 kl. 07:00

IceFish 2014 - metþátttaka var á síðustu sýningu og nú stefnir í að enn verði bætt um betur.

Íslenska sjávarútvegssýningin, sú tólfta í röðinni, hefst í næstu viku.

Hefur meira en tvöfaldast að umfangi

Íslenska sjávarútvegssýningin, sú tólfta í röðinni, vekur sérstaka athygli nú vegna mikillar endurnýjunar í íslenska fiskiskipaflotanum. Eftir 33 ár hefur sýningin fest sig í sessi sem alþjóðleg fagsýning, sem dregur að sér fyrirtæki, hagsmunaaðila og áhugafólk frá öllum heimshornum.

Haustið 1984 var fyrsta Íslenska sjávarútvegssýningin (IceFish) haldin. Vettvangur sýningarinnar fyrstu fimm skiptin var Laugardalshöllin í Reykjavík en árið 1999 hafði sýningin sprengt það rými utan af sér og hún flutt í Kópavog þar sem hún hefur verið haldin síðan. Til samanburðar við umfang sýningarinnar nú þá var sýningin í upphafi haldin í einum litlum íþróttasal og tveimur bráðabirgðaskemmum sem fluttar voru inn frá Hollandi. Nú eru sýnendur mörg hundruð frá tugum landa úr öllum heimshornum.

Breska fjölmiðla- og sýningarfyrirtækið Mercator Media Ltd. er skipuleggjandi sýningarinnar og sýningarstjóri er Marianne Rasmussen-Couling.

„Það sem einkennir sýninguna í ár, samanborið við þær fyrri, er endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans en frá því að við komum saman síðast hafa minnst 14 ný skip komið til heimahafnar – og fleiri á leiðinni. Þess vegna er áhugi erlendra fyrirtækja sérstaklega mikill nú, og fjölgar þeim um 40%. Við fögnum þátttöku nýrra fyrirtækja frá fjölmörgum löndum,“ segir Marianne en hingað koma í ár nýir þátttakendur frá Bangladess, Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Litháen, Hollandi, Noregi, Perú, Póllandi, Portúgal, Singapúr, Spáni, Tyrklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

„Eftir 33 ár hefur Íslenska sjávarútvegssýningin fest sig í sessi sem alþjóðleg fagsýning, sem dregur að sér fyrirtæki, hagsmunaaðila og áhugafólk úr öllum heimsálfum,“ segir Marianne.

Í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna eru Íslensku sjávarútvegsverðlaunin veitt í sjöunda sinn en að þeim koma Fiskifréttir eins og fyrri ár, og sjávarútvegsritið World Fishing. Verðlaunin eru veitt þeim sem teljast hafa skarað fram úr á ýmsum sviðum sjávarútvegs, bæði í veiðum og vinnslu, og eins í framleiðslu tækjabúnaðar fyrir atvinnugreinina. Valinn er framúrskarandi skipstjóri, útgerð og fiskvinnsla og einnig framleiðendur veiðarfæra og tækjabúnaðar sem vakið hafa athygli fyrir nýjungar og frumkvöðlastarf. Verðlaunin til erlendra aðila lúta aðeins að framleiðendum veiðarfæra og tækja.

Vex stöðugt ásmegin
IceFish á rætur sínar að rekja til ársins 1984 og hefur meira en tvöfaldast að umfangi síðan þá. Sýningin er haldin þriðja hvert ár að beiðni sýnenda en það tryggir að nýjar vörur og þjónusta eru kynntar á sýningunni sem hefur sannað sig sem mikilvægur viðburður á heimsvísu hvað sjávarútveg varðar, er mat aðstandenda. Sýningin nýtur stuðnings Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssambands smábátaeigenda.

Aðsókn sýningarinnar árið 2014 óx um 12% borin saman við sýninguna 2011, og alls sóttu hana 15.219 gestir, þar með taldir hópar frá Austurlöndum fjær, Norður- og Suður-Ameríku og Afríku. Rúmlega 500 sýnendur komu frá fimm heimsálfum. Nýir sýnendur komu þá frá Kína, Þýskalandi, Japan, Tyrklandi og Bandaríkjunum.

Nú fjölgar erlendum sýnendum um rúm 40% á milli sýninga. Má nefna að danski þjóðarbásinn verður tvöfalt stærri en síðast og sá norski 50% stærri. Þá eru bæði Færeyjar og Bretar með þjóðarbása.

Nýjungar og ráðstefna
Ýmsar nýjungar verða teknar upp á sýningunni nú og aðstaða gesta bætt enn frekar; sérstakt IceFish snjallforrit fyrir síma var hannað til auðvelda gestum að feta sig í gegnum sýninguna, svo dæmi sé nefnt.

Auk sýningarinnar sjálfrar verður haldin önnur IceFish-ráðstefnan. Þema ráðstefnunnar er sem fyrr „Fiskúrgangur skilar hagnaði“, sem kristallast í hugarfarsbreytingu á Íslandi hvað varðar meðferð og nýtingu sjávarfangs á síðustu árum.