fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Heimsaflinn minnkar

12. febrúar 2018 kl. 16:00

Spænskur togari staðinn að ólöglegum veiðum í argentínskri lögsögu. MYND/EPA

Ný rannsókn á tölfræði fiskveiða sýnir að heimsaflinn hafi að meðaltali minnkað um 1,6 milljónir tonna á ári, sem stangast á við tölur frá FAO.

Frá árinu 1996 hefur heimsaflinn að meðaltali minnkað um 1,6 milljónir tonna á ári. Það ár hafi heildaraflinn verið nærri 130 milljón tonn en sé nú kominn niður undir 110 milljónir tonna.

Þetta er fullyrt í grein í væntanlegu aprílhefti vísindatímaritsins Marine Policy, þar sem greint er frá niðurstöðum nýrrar rannóknar á gögnum frá upplýsingavefnum The Sea Around Us, sem haldið er úti af Háskóla Bresku Kólumbíu í Kanada.

Þetta stangast á við tölur frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hefur gengið út frá því að heimsaflinn hafi staðið í 86 milljónum tonna árið 1996, hækkað síðan rólega upp í 91 milljón tonna og haldist nálægt þeirri tölu ár frá ári.

Skýringarnar á þessu misræmi eru sagðar vera framfarir í skráningu afla hjá ríkjum heims, sem hafi batnað verulega á síðustu árum. Vankantar á skráningu hafi víða gefið ranga mynd af veiðunum, en betri skráning hafi einnig gefið ranga mynd af þróuninni frá ári til árs.

Litið hafi út fyrir að veiðarnar hafi aukist þegar í reynd hafi skráningin aðeins verið að batna, þannig að viðbótarmagn í skráningu hafi verið talið bætast við veiðarnar þegar í reynd var ekki verið að veiða meira en áður, aðeins skrá veiðar sem áður voru óskráðar.

Höfundar greinarinnar í Marine Policy eru Dirk Zeller og Daniel Pauly. Í frásögn á vefnum The Sea Around Us taka þeir dæmi af Mósambík þar sem opinberar tölur hafi sýnt að afli smábáta hafi skyndilega aukist um 800 prósent milli áranna 2003 og 2004. Veiðimagnið hafi þó ekki breyst neitt í raun, heldur aðeins skráningin.

gudsteinn@fiskifrettir.is