fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingi fleiri skemmtiferðaskip til Siglufjarðar

Guðjón Guðmundsson
30. mars 2018 kl. 06:00

Þorbjörn Sigurðsson, yfirhafnarvörður á Siglufirði. MYND/GUGU

Veiðigjöld að kæfa minni útgerðir

Þorbjörn Sigurðsson býr á Ólafsfirði og er yfirhafnarvörður Fjallabyggðahafna. Hafnirnar eru tvær, á Ólafsfirði og Siglufirði. Hann segir umferðina við höfnina árstíðabundna og þegar blaðamaður var á ferð á Siglufirði var frekar rólegt um að litast. Hann segir von á umtalsvert meiri fjölda skemmtiferðaskip á þessu ári en því síðasta og svo setji strandveiðarnar alltaf sinn svip á höfnina á sumrin.

Þorbjörn segir lítið eftir af útgerð í Ólafsfirði og nánast eingöngu smábátar gerðir út. „Útgerð er yfirleitt hverfandi hérna og kvótinn að hverfa. Ástæðan er veiðigjaldið. Litlu útgerðirnar ráða ekki við það. Hér á Siglufirði er að vísu stórt og öflugt fyrirtæki sem við vonum að haldi sínum heimildum. En Ramminn einn ber ekki uppi þá umferð sem þarf að vera á höfninni,“ segir Þorbjörn.

Dró úr lönduðum afla á síðasta ári

Engu að síður er Siglufjörður með stærri löndunarhöfnun á landinu. Ástæðan er sú að seinni part sumars og fram undir áramót hefur floti línubáta, meðal annars að sunnan, landað þar. Línubátar Þorbjarnar í Grindavík hafa haft þennan háttinn á og sömuleiðis stunda línubátar Vísis veiðar úti fyrir Norðurlandi á þessum árstíma og lönduðu á Dalvík en hafa nú breytt út af því og landa nú „á skagfirska efnahagssvæðinu á Sauðárkrók,“ segir Þorbjörn. Róðurinn lengist þannig hjá þeim um 6-8 tíma miðað við ef þeir lönduðu á Siglufirði. Á móti kemur að styttra er að flytja aflann frá Sauðárkróki til Grindavíkur.

Minna var landað á Siglufjarðarhöfn árið 2017 en árið þar á undan, eða tæpum 25.300 tonnum á móti 33.520 tonnum. Ástæðan var sjómannaverkfallið og breytingar í útgerð Rammans sem lagði einu skipa sinna meðan beðið var eftir nýja frystitogaranum Sólbergi ÓF sem komst ekki í fulla drift fyrr en á miðju ári.

Um 30 strandveiðibátar eru gerðir út frá Siglufirði og segir Þorbjörn líka samdrátt í þeim veiðum. Menn hafi ekki nóg upp úr krafsinu á þeim þremur til fjórum mánuðum sem veiðarnar standa yfir.

Ónýtir kantar

„Komur skemmtiferðaskipa er vaxandi þáttur í starfsemi hafnarinnar. Í sumar hafa 42 skip boðað hingað komu sínar en komurnar voru um 20 í fyrra. En þetta eru fremur smá skip sem gefa ekki jafnmiklar tekjur og þau stærri. Tekjur hafnanna þar sem stóru skemmtiferðaskipin koma, eins og í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, hlaupa á hundruðum milljóna króna.“

Á síðustu tveimur árum hafa verið framkvæmdir við höfnina upp á rúman hálfan milljarð króna. Settur var nýr 250 metra kantur og dýpkað um leið.

Þorbjörn segir aðkallandi verkefni að reka niður ný stálþil við innri dokkina við flotbryggjuna, sem er elsti hluti Siglufjarðarhafnar. Kantarnir eru ónýtir og fyllingin skolist í burtu. Þetta er framkvæmd upp á um 160 milljónir kr. Flotbryggjan er mikið notuð af strandveiðiflotanum.