föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingur hafsbotnsins við Ísland ósnertur af botntrolli

28. desember 2009 kl. 13:07

Talið er að helmingur af hafsbotninum á Íslandsmiðum ofan 1.000 metra dýptarlínu hafi ekki verið snertur með botntrolli síðustu tuttugu árin. Sé hins vegar miðað við hafsbotinn niður á 500 metra dýpi gæti 20-25% af því svæði verið ósnert af botntrolli síðustu tvo áratugina.

Þetta kemur fram í viðtali við dr. Grím Valdimarsson forstjóra hjá fiskideild FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Grímur segir að umræða um skaðsemi botntrollsins í fiskveiðum sé oft á tíðum á villigötum og eitt látið yfir allt ganga. Vissulega geti botntrollið valdið tjóni á kórölum en í Eystrasalti sé til dæmis malarbotn og togveiðum þar fylgi engar botnskemmdir. Í Norðursjó fari togveiðar fram á takmörkuðu svæði þar sem búið sé að ryðja togbrautir.

Grímur bendir á að margir geri sér ekki grein fyrir því að fjölmargar fisktegundir verði ekki veiddar nema í botntroll. Því þurfi að vera á varðbergi gagnvart þeim öflum sem vilji knýja fram allsherjarbann við botnvörpuveiðum á alþjóðavettvangi. Brýnt sé að fram fari upplýst umræða um fiskveiðar á faglegum grunni þannig að þeir sem ákvarðanir taki láti ekki stjórnast af einhliða áróðri. Jafnframt þurfi að beita þessu veiðarfæri af skynsemi og loka viðkvæmum svæðum eftir því sem við eigi.

Sjá nánar viðtal við Grím um ástandið í sjávarútvegi á heimsvísu og þróun mála síðustu árin í jólablaði Fiskifrétta sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku.