mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Helmingur uppsjávarflotans stefnir á gulldepluna

29. janúar 2009 kl. 10:06

Aflinn 4 þúsund tonn

Þokkalegur gangur er í veiðum á gulldeplu hjá þeim þrem skipum sem komin eru á þessar veiðar. Heildaraflinn er um 4 þúsund tonn. Um helmingur uppsjávarflotans býr sig undir að stunda þessar veiðar, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Huginn VE landaði 900 tonnum af gulldeplu á mánudaginn og er þá kominn með 2.100 tonn alls. Hoffell SU landaði 726 tonnum á þriðjudaginn og er með um 820 tonn í heild. Birtingur NK landaði 500 tonnum í síðustu viku og var á leið til lands með 550-600 tonn um miðja þessa viku. Alls hefur Birtingur veitt um 1.100 tonn. Samtals er gulldepluveiðin því um 4.000 tonn.

Þeim fjölgar stöðugt skipunum sem ætla að hefja veiðar á gulldeplu. Líklega bætast 4 skip í hópinn nú í vikunni, Eskjuskipin tvö Aðalsteinn Jónsson SU og Jón Kjartansson SU, Bjarni Ólafsson AK og Kap VE. Verið er að útbúa að minnsta kosti 4 önnur skip á veiðarnar og líklega fleiri. Allt stefnir því í það að 11 skip eða fleiri verði komin á þessar veiðar innan tveggja vikna sem er um helmingur uppsjávarflotans.