sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hernaðarlegt mikilvægi Íslands gerði útslagið í þorskastríðunum

12. júní 2017 kl. 15:17

Flosi Þorgeirsson sagnfræðingur. MYND/HAG

Flosi Þorgeirsson fer yfir samskipti Íslendinga og Breta á árum áður

Hernaðarlegt mikilvægi Íslands gerði útslagið í því að Íslendingar höfðu betur gegn Bretum í þorskastríðunum. Það þótti stríða gegn hagsmunum Atlantshafsbandalagsins að ein Nato þjóð sendi herskip að lögsögu bandalagsþjóðar.

Átök Landhelgisgæslu Íslands, breska sjóhersins og breskra togara á Íslandsmiðum í þorskastríðunum þremur eru Íslendingum hugleikin. Flosi Þorgeirsson sagnfræðingur hefur fjallað mikið um þetta efni. 

Flosi vinnur nú að meistaraverkefni í sagnfræði sem fjallar um átök Íslendinga og Breta í tengslum við útfærslu á lögsögu Íslands.

Hann segir að Bretar hafi verið við veiðar við Ísland alveg frá ómunatíð en skipulögð landhelgisgæsla á Íslandsmiðum hófst þó ekki að ráði fyrr en árið 1906 með tilkomu varðskipsins Islands Falk. Fimm árum áður höfðu Danir og Bretar samið um þriggja mílna lögsögu við Ísland. Fremstur í flokki við að verja landhelgina var danski sjóliðsforinginn G. Shack á varðskipinu Hekla. Hann varð landsfrægur fyrir framgöngu sína sumarið 1905 þegar hann tók 22 togara í landhelgi.

Þakkarbréf frá alþingismönnum

„Það er eiginlega merkilegt hvað Shack er gleymdur í dag. Hann var á sínum tíma þjóðfræg persóna og mjög vel kynntur í bæjum í kringum landið. Hann var síðan látinn hætta skyndilega og opinbera skýringin var sú að það hefði verið vegna heilsubrests. Það trúði því ekki nokkur maður og menn eru nokkuð vissir um að hann hefði verið látinn fara vegna árvekni sinnar og framgöngu. Menn voru hræddir við að angra þessar stóru þjóðir. En þegar Shack lét af störfum skrifuðu allir alþingismenn undir þakkarbréf til hans. Hann fór um borð í fiskiskip sem veiddu innan landhelgi með hóp manna sem vopnaðir voru skammbyssum og sverðum. Fyrir kom að hann þurfti að skjóta aðvörunarskotum á skip sem voru innan þriggja mílna lögsögunnar,“ segir Flosi.

Síðan vindur sögunni fram og í stríðslok hefst mikil uppbygging á fiskiskipaflota Íslendinga. Marshall aðstoðin reyndist þar drjúg og fljótlega höfðu Íslendingar skipað sér í flokk með helstu fiskveiðiþjóðum Evrópu.

Hagsmunir og heimspólitík

„Fljótlega upp úr þessu fara Íslendingar líka að lenda í útistöðum við Breta. 1952 færa Íslendingar landhelgina út í 4 mílur og fetuðu þar í fótspor Norðmanna sem höfðu gert slíkt hið sama nokkrum árum áður. Bretar veiddu einnig mikið við Noregsstrendur en höfðu þó á endanum sætt sig við útfærslu norsku landhelginnar. Annað var upp á teningnum hér. Þeir tóku útfærslunni mjög illa. Jafnvel Norðmenn brugðust okkur. Þetta hentaði ekki hagsmunum þeirra því þeir veiddu töluverða síld hér við land.“

Í kjölfar útfærslunnar 1952 settu Bretar löndunarbann á íslensk skip sem hafði mikil efnahagsleg áhrif á Íslandi.

„Þá stigu fram Sovétríkin og buðust til þess að kaupa sjávarafurðir frá Íslandi. Þetta er í eina skiptið sem Sovétmenn studdu Íslendinga í þorskastríðunum þótt margir haldi því fram að þeir hafi jafnan staðið þétt að baki þeim. 1975 settu þeir sig t.a.m. á móti því þegar Íslendingar færðu lögsöguna út í 200 mílur. En það munaði miklu um stuðning þeirra í fyrsta þorskastríðinu. Viðskiptin voru í formi vöruskipta. Við fluttum út sjávarafurðir til Sovétríkjanna og fengum í staðinn olíu, ýmsar iðnaðarvörur og bifreiðar eins og „Rússajeppa“ og Moskvitch. Bandaríkjamönnum leist eðlilega illa á þessi viðskipti en þeim blöskraði einnig þetta löndunarbann Breta. Eisenhower sjálfur stakk m.a. upp á því að Bandaríkin myndu yfirbjóða Sovétríkin og kaupa allan fiskafla Íslendinga og veikja þannig löndunarbannið en af því varð þó ekki.“

Flosi segir það raunar sérstakt rannsóknarefni að þorskastríðin fengju að ganga svo langt sem þau gerðu með tilliti til þess að Ísland var eitt af stofnríkjum NATO árið 1949. Bretar sendu herskipaflota í þrígang á Íslandsmið og í hvert sinn fóru þeir í raun sneypuför.

Þorskastríðin „fyrirtaks æfing“

„Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna Bretar fóru alltaf þessa leið og niðurstaðan er eiginlega sú að þetta sé bara hefð hjá þeim að sýna smáríkjum sem gera sig breið flotann sinn. En tímarnir voru breyttir og þjóðir gátu ekki alltaf hagað sér eins og heimsveldi gerðu t.d. á nítjándu öld. Þó gerðu Bretar það með ágætum árangri 1982 þegar þeir tóku Falklandseyjar. Margir bresku sjóliðanna í því stríði höfðu fengið dýrmæta reynslu í því að takast á við náttúruöflin hér við Íslandsstrendur. Öðrum þræði leit breski flotinn þannig á málið að þorskastríðin væru fyrirtaks æfing við erfiðar aðstæður.“

Flosi segir að alveg frá upphafi hafi Bretar verið mjög efins um árangur aðgerða sinna á miðunum við Ísland. Það helgist ekki síst af því að breski flotinn fékk aldrei leyfi til þess að beita sér að fullu gegn varðskipunum íslensku og skjóta á þau en þó var falast eftir slíkum heimildum.

„Yfirmenn máttu leita eftir heimild til að skjóta á íslensku varðskipin ef þeir höfðu ástæðu til að ætla að lífi og limum manna á freigátunum væri stefnt í hættu. Landhelgisgæslan á hinn bóginn gætti sín yfirleitt á því að skjóta ekki á bresku togarana ef freigáta var nærri. Það gerðist þó raunar varla nema þegar varðskipin eltu togara sem höfðu verið staðnir að veiðum í landhelgi og reyndu að komast burt.“

Vantrú á vísindalegum rökum og sögulegur réttur

Ein af ástæðunum fyrir því að átökin milli Íslendinga og Breta þróuðust út í það sem hefur verið kallað þorskastríð var vantrú Breta á vísindalegum rökum Íslendinga um nauðsyn þess að vernda auðlinda og sögulegur réttur þeirra til veiða við Ísland. Gríðarlegir hagsmunir og sterkar hefðir voru undir í Grimsby og Hull og viðbrögð Breta við útfærslu landhelginnar að mörgu leyti skiljanleg.

„Íslendingar voru eiginlega með pálmann í höndunum frá upphafi í þessum deilum. Þeir voru á undan Bretum að skynja strauma í þróun hafréttar. 8. apríl 1976 útnefnir James Callaghan, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Anthony Crosland í embætti utanríkisráðherra. Það merkilega við það er að hann var frá Grimsby. Það var að hans frumkvæði að Bretar ákváðu að ganga til samninga við Íslendinga. Þar réði mestu um staða Íslands innan Nato og þrýstingur frá Bandaríkjunum. Einnig beittu Norðmenn sér mikið fyrir lausn deilunnar, ekki síst Knud Frydenlund, utanríkisráðherra á árunum 1973 til 1981 og aftur 1986 til 1987. Hans þáttur í lausn deilunnar er mögulega vanmetinn. Það sem réði kannski helst afstöðu Norðmanna var sú hugsun að ef Íslendingar segðu sig úr Atlantshafsbandalaginu, eins og þeir höfðu hótað að gera, ef allt færi á versta veg og það yrði hlutlaust ríki á hernaðarlega mikilvægum stað. Á endanum var það hernaðarlegt mikilvægi landsins sem réði úrslitum í þriðja þorskastríðinu. Bretar sáu að samstarf við Ísland á þessu sviði væri mikilvægara en fiskiðnaðurinn í Grimsby og Hull sem hvort eð var í hnignun.“

Greinin birtist í sjómannadagsblaði Fiskifrétta. Höfundur: Guðjón Guðmundsson