mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Hirða af okkur öll bestu hrefnuveiðisvæðin"

4. maí 2009 kl. 12:02

segir Konráð Eggertsson hrefnuveiðimaður

,,Með ákvörðun sinni hefur Steingrímur sjávarútvegsráðherra hirt af okkur öll bestu hrefnuveiðisvæðin. Hann meira að segja gekk lengra en Hafró og stækkaði þau svæði sem stofnunin hafði lagt til,” sagði Konráð Eggertsson hrefnuveiðimaður í samtali við Fiskifréttir.

,,Ég botna ekkert í þjónkun ráðamanna við hvalaskoðunarfyrirtækin. Við hrefnuveiðimenn höfum ítrekað boðist til að veiða ekki nálægt hvalaskoðunarbátunum. Við viljum að veiðimenn og hvalaskoðunarmenn virði vilja hvers annars eins og gert er í Noregi. Þar eru engin afmörkuð hvalaskoðunarsvæði. Á þessi sjónarmið okkar hefur ekki verið hlustað,” sagði Konráð.

Sjávarútvegsráðherra gaf út í síðustu viku reglugerð þar sem tvö hvalaskoðunarsvæði eru afmörkuð í Faxaflóa og milli Tröllaskaga og Mánáreyja norður af Tjörnesi. Eins og fram hefur komið í fréttum hafði ráðherrann leitað álits Hafrannsóknastofnunar sem gerði sínar tillögur sem síðan voru bornar undir hagsmunaaðila, þ.e. veiðimenn annars vegar og hvalaskoðunarfyrirtækin hins vegar.

Á vef sjávarútvegsráðuneytisins má lesa fréttatilkynningu ráðuneytisins ásamt reglugerðinni og kortum af hvalaskoðunarsvæðunum sem lúta veiðibanni. SjáHÉR