miðvikudagur, 18. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrygningarsvæði loðnunnar kortlögð

7. ágúst 2017 kl. 08:00

Háfurinn settur í sjóinn. Hann hefur verið notaður í makrílleiðangri Árna Friðrikssonar til að safna loðnuungviði undanfarnar vikur. Mynd/Björn Gunnarsson

Minna fannst af loðnulirfum fyrir norðan land en búist hafði verið við

Um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni hefur undanfarnar vikur hópur vísindamanna frá Hafrannsóknarstofnun unnið að því að safna loðnuungviði úr hafinu umhverfis landið.

Vísindamennirnir hafa slegist í för með makrílleiðangri Hafrannsóknarstofnunar og stefna að því að kortleggja útbreiðslu loðnuungviðis allt í kringum landið og komast þannig að því hvar hrygningarsvæði loðnunnar eru.

„Við hófum sýnasöfnun í vorleiðangri í maí og söfnuðum þá á 100 stöðvum allt í kringum landið,“ segir Björn Gunnarsson jávarlíffræðingur sem hefur stjórnað leiðangrinum. „Sýnatakan í ár er hugsuð sem forathugun fyrir umfangsmeiri rannsóknir í framtíðinni, þ.e.a.s. hvernig best væri að haga sýnatökum síðar meir.“

Hann segir að nú þegar hafi sýnatökurnar skilað áhugaverðum niðurstöðum. Þannig hafi afskaplega lítið fundist af stórum loðnulirfum fyrir norðan land, sem fyrirfram hefði þó mátt búast við.

„Við urðum ekki varir við stærri lirfur fyrir norðan, og það er alla vega áhugavert þótt hafa verði alla fyrirvara,“ segir Björn. „En svo sáum við töluvert mikið af stórum lirfum fyrir Suðausturlandi.“

Rannsóknirnar eru nýmæli
„Göngurnar hafa verið svolítið öðru vísi undanfarin ár og það vakti forvitni hjá okkur. Loðnan hefur verið að skila sér seint og illa þannig að við vildum reyna að átta okkur á því hvort það væru sjáanlegar einhverjar breytingar í hrygningunni. En svo varð vertíðin í vor eða seint í vetur nær því sem við höfum átt að venjast, þannig að það eru greinilega sveiflur í þessu.“

Rannsóknir þessar eru nýmæli hjá Hafrannsóknarstofnun en kveikjan að þeim eru þær breytingar sem hafa orðið á útbreiðslu og gönguhegðun loðnu undanfarna tvo áratugi: „Fæðugöngur hafa meðal annars vestar og norðar auk þess sem loðna á hrygningargöngu hefur undanfarin ár gegnið illa austur og suður fyrir land til hrygningar á hefðbundnum svæðum,“ segir á bloggsíðu uppsjávarleiðangurs Hafrannsóknarstofnunar sem hófst þegar Árni Friðriksson hélt úr höfn 3. júlí og er að ljúka þessa dagana.

Þar segir einnig að þessar breytingar megi líklega rekja til hlýnunar andrúmsloftsins þótt enn sé margt óljóst um orsakasamhengið. Að minnsta kosti hefur hitastig sjávar hér við land hækkað undanfarna tvo áratugi. Þetta gerðist fyrst við suður- og vesturland en síðan einnig á öðrum hafsvæðum, og að sögn leiðangursmanna hefur þessi hlýnun þegar haft margvísleg áhrif á lífríki sjávar.

Þannig hafi frá árinu 1996 þegar orðið vart við á þriðja tug fisktegunda hér við land sem ekki er vitað til að áður hafi fundist hér.

Kanarífuglinn í námunni
„Þar ber hæst gríðarleg aukning í makrílgengd inn á íslenska hafsvæðið þó ekki séu allir tilbúnir að skrifa upp á hlýnunina sem orsakavald heldur benda á stækkandi stofn í Norðaustur Atlantshafi og skort á æti á hefðbundnum útbreiðslusvæðum,“ segir á bloggsíðunni. „Þá hefur útbreiðsla stofna eins og ýsu og skötusels teygt sig verulega norður á bóginn á þessu tímabili.“

Fullyrt er að þessar umhverfisbreytingar séu almennt taldar hafa haft jákvæð áhrif á lífríkið þó ekki sé það einhlítt.

Áhrifin á loðnuna geta síðan gefið mikilvægar vísbendingar um ástandið á fleiru í lífríki hafsins. Sjálf er hún bæði dýrmætur veiðistofn við Ísland og lykiltegund í vistkerfi sjávar við landið. Hún er mikilvægasta fæða þorsksins og margra annarra nytjastofna hér.

„Loðnan, sem er kaldsjávartegund, hefur stundum verið nefnd „kanarífuglinn í námunni“ vegna þess hversu viðkvæm hún er fyrir hitabreytingum,“ segir á bloggsíðu leiðangursins. „Mikilvægt er að fylgst sé náið með áhrifum umhverfisbreytinga á jafn vistfræðilega mikilvæga tegund og loðnu.“

gudsteinn@frettabladid.is