sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hætta á að síldarvinnsla stöðvist verði makrílprósentan ekki hækkuð

27. ágúst 2009 kl. 13:06

Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að ef ekki verði rýmkaðar heimildir um meðafla makríls á síldveiðum sé raunveruleg hætta á því að vinnsla á síldinni og makrílnum stöðvist og mikil verðmæti renni Íslendingum úr greipum.

,,Makrílmeðafli hefur verið að aukast aftur hjá skipunum og eru skipin að landa núna 15-20% makríl sem meðafla. Vinnsluskipin eru að landa frosnum makríl að verðmæti um 40 milljónir en það er þrefalt meira verðmæti en ef honum væri landað til bræðslu.  Sömu sögu er að segja af vinnslunni í landi en þar er reynt að frysta allan þann makríl sem hægt er. Því er brýnt að endurskoða sem fyrst gildandi reglur um meðaflaprósentu á síldveiðum svo flotinn stöðvist ekki og mikil verðmæti renni Íslendingum úr greipum,” segir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins.

Ómælt tjón

Og hann heldur áfram: ,,Ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að vinnsla á síldinni og makrílnum stöðvist.  Núna eru t.d. skip byrjuð að veiða síld sem er smærri og verðminni upp við Svalbarða sem er um 700 sml í burtu til að forðast meðafla.  Ef skip Síldarvinnslunnar þurfa að snúa sér að því svæði þá verður mjög erfitt að vinna meira af þessari síld hér í landi. Það yrði ómælt tjón fyrir fyrirtækið og starfsfólk okkar en við stefnum á að geta unnið þessa síld fram á haustið.

Undarleg staða

Það er reyndar mjög undarleg staða að vera með jafn verðmætan fisk og makríl hérna við bæjardyrnar og geta ekki fiskað hann til manneldisvinnslu.  Því skora ég á stjórnvöld að endurskoða strax gildandi reglur. Ég tel mjög mikilvægt að allt verði gert til að manneldisvinnsla um borð í vinnsluskipum og landvinnslum hérlendis geti haldið áfram. Það er mjög nauðsynlegt að endurskoða meðaflaprósentuna þegar aflinn er unninn til frystingar og ég trúi ekki öðru en að sjávarútvegsráðherra geri það.  Þetta snýst um mikil verðmæti og atvinnu fjölda fólks,” segir Gunnlaugur