fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvalir merktir með gervihnattamerki

9. júlí 2009 kl. 15:00

Í síðustu viku voru tveir hvalir merktir með gervihnattamerki í Skjálfanda á vegum Hafrannsóknastofnunar, annar hnúfubakur og hinn steypireyður. Auk þess voru DNA-sýni tekin til frekari rannsóknar. Hægt er að fylgjast með ferðum þessara hvala á vef Hafró að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Gervitunglamerkið er um 10-15 sentímetrar að lengd, fyrir utan loftnet og búnað sem festir merkið í spiki hvalsins. Merkið sendir frá sér boð um staðsetningu hvalsins hverju sinni. Boðin eru tekin niður í jarðstöð í Frakklandi og send hingað til lands. Merkinu er skotið í hvalinn þegar hann kemur upp til að blása. Svo lengi sem merkið hangir í hvalnum er hægt að fylgjast með ferðum hans. Það þykir góður árangur ef merkið helst í hvalnum í nokkrar vikur, að því er Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði í samtali við Fiskifréttir.

,,Við erum fyrst og fremst að kanna hegðun og far dýranna. Í upphafi þyrsti okkur þó mest að fá vitneskju um hvert hvalirnir fara á haustin. Við vitum lítið um hegðun hvala og hvert eitt merki getur bætt miklu við þekkingu okkar,“ sagði Gísli. Hann bætti því við að hvalirnir sem merktir voru í Skjálfanda í hinni vikunni héldu sig enn úti fyrir Norðurlandi. Steypireyðurin hefur verið í utanverðum Húnaflóa síðustu daga en hnúfubakurinn er nú staddur skammt norður af Öxarfirði eftir talsvert ferðalag allt norður að 67°12 N. 

Hægt er að fylgjast með ferðum hvalanna á eftirfarandi slóð:

Merktur hnúfubakur:  http://www.hafro.is/hvalamerki/hnufubakur.html

Merkt steypireyður:  http://www.hafro.is/hvalamerki/steypireydur.html