sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hversu ábatasamar eru strandveiðar?

2. júlí 2009 kl. 15:00

Strandveiðar eru mjög ábatasamar fyrir þá sem kosta litlu til og sækja stíft en þær standa ekki undir miklum fjárfestingum að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Strandveiðar eru nú hafnar af miklu kappi. Um 300 leyfi höfðu verið gefin út um miðja vikuna en margar umsóknir lágu þá enn óafgreiddar hjá Fiskistofu. Þótt endanlegur fjöldi leyfa liggi ekki fyrir má velta fyrir sér hversu ábatasamar veiðarnar gætu verið fyrir hvern og einn sem stundar þær. Fiskifréttir fengu Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, í lið með sér til að reikna það dæmi.

Örn sagði að reikna mætti með því að um 200 krónur eða meir fengjust á kíló fyrir færaþorskinn miðað við óslægt. Þau tæpu 4 þúsund tonn sem eru til ráðstöfunar í kerfinu í sumar gætu því gefið rúmar 800 milljónir króna í aflaverðmæti. Ef reiknað er með því að leyfin séu 300 þá getur hver bátur veitt þorsk fyrir um 2,7 milljónir króna að meðaltali.

Ef gert er ráð fyrir því strandveiðimaður hafi tekið 3-4 milljónir króna að láni til að fjármagna kaup á báti og búnaði þá gæti dæmið litið þannig út: Aflaverðmæti 2,7 milljónir, laun og launatengd gjöld ein milljón, ýmis rekstrarkostnaður 700 þúsund og fjármagnskostnaður og afborganir um 500 þúsund. Ávinningur af strandveiðum eða frjálsum handfæraveiðum í um tvo mánuði fyrir þann sem þetta dæmi á við yrði þá í fyrsta lagi þokkaleg laun fyrir vinnuframlag og í öðru lagi 500 þúsund krónur í hagnað fyrir skatta.

Ávinningurinn er meiri ef menn eiga skuldlausa báta. Hagnaður í því tilviki gæti numið um einni milljón fyrir skatta. Ef fjárfestingin er 10 milljónir eða meir og reiknað er með því að strandveiðarnar einar eigi að standa undir fjármagnskostnaði er hætt við að menn hafi ekkert upp úr krafsinu.

Hafa ber í huga að hér er um meðaltalstölur að ræða. Sumir kunna að fara hægt í sakirnar við veiðarnar á meðan aðrir afla mun meira en meðaltalið. Þá er í þessum útreikningum miðað við 300 leyfi. Eftir því sem leyfunum fjölgar minnkar sá afli sem hver og einn getur veitt að meðaltali.

Sjá nánar í Fiskifréttum.