þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hversu langt er of langt?

19. desember 2009 kl. 14:34

Umhverfissinnuðum neytendum nægir ekki að fá fullvissu um það að fiskurinn sem þeir borða sé veiddur úr sjálfbærum fiskistofnum. Þeir vilja líka vita um hversu langan veg fiskurinn var fluttur áður en hann komst á markað og hve mikil orka fór í flutninginn.

Þetta er álit forstjóra FishPartners í Hollandi. Fyrirtækið er hluti af Kennemervis Group sem á fyrirtæki í Hollandi, Danmörku, Belgíu, Svíþjóð og Frakklandi og velti 250 milljónum evra á síðasta ári, jafnvirði 46 milljarða íslenskra króna.

,,Sjávarafurðir frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu eru fluttar til Evrópu með flugvélum og skipum sem nota gríðarlega orku og losa mikið af koltvísýringi út í andrúmsloftið enda komnar um 8.000 kílómetra veg. Hvers vegna ekki að láta þess getið á umbúðunum?” spyr Peter Frans Koelewijn forstjóri FishPartners í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish.

Hann bætir því við að slíkar merkingar gætu aukið sölu á sjávarafurðum sem framleiddar eru í ríkjum Evrópusambandsins.

Svo er bara að sjá hversu langt má flytja vöruna þar til neytendum þyki of langt farið.