mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

IceMar kaupir hlut í Ísfiski

Guðsteinn Bjarnason
8. mars 2018 kl. 11:35

Ísfiskur hefur verið með vinnslu í Kópavogi og nú einnig á Akranesi. MYND/HAG

Gunnar Örlygsson segir fyrirtækið gríðarlega vel búið, með reynslumikið starfsfólk og góða stjórnendur. Stefnt sé á að tvöfalda framleiðsluna á næstu tveimur árum

„Við komum inn sem minnihlutaeigendur og í stjórn félagsins,“ segir Gunnar Örlygsson, stjórnarformaður og eigandi útflutningsfyrirtækisins IceMar, sem nú hefur keypt hlut í Ísfiski hf.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Ísfisk,“ segir Gunnar og hlakkar til samstarfsins.

Ísfiskur gekk í haust frá kaupum á bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi og hluta af vinnslulínu fyrirtækisins þar. Ísfiskur heldur jafnframt áfram fiskvinnslu sinni í Kópavogi og starfsemin á Akranesi er þegar farin af stað.

„Við horfum á þetta þeim augum að við erum að styrkja hráefnisendann í útflutningi okkar. Fyrirtækið er að fara að auka framleiðslu og mun IceMar leggja lóð á vogarskálarnir í frekari markaðssetningu afurðanna.

Ísfiskur gerir ráð fyrir því að tvöfalda framleiðsluna úr 3.500 tonnum á ári í 7.000 þúsund tonn. Fyrirtækið hefur verið starfrækt síðan 1980.

Gunnar segist hafa mikla trú á Ísfiski, enda þekkir hann vel til fyrirtækins.

„Þetta er gott félag sem nú er komið á nýan stökkpall. Ísfiskur býr yfir öflugum búnaði til fiskvinnslu, með vatnsskurðarvélar frá Völku á báðum stöðum, Curio flökunarvélar og annan hátæknibúnað. Við horfum líka til þess að starfsfólkið er með mikla reynslu og stjórnendur og meðeigendur hafa mikinn metnað fyrir félagið. Markaðsaðstæður eru að sama skapi góðar og mikil eftirspurn eftir bæði þorsk- og ýsuafurðum, útlitið er því gott.“

Stefnt á nýja markaði

Ákvörðun HB Granda, sem kynnt var síðastliðið vor, um að sameina bolfiskvinnsluna á Akranesi og vinnslu fyrirtækisins í Reykjavík vakti mikla athygli og hörð viðbrögð á Akranesi. Öll vinnslan var flutt til Reykjavíkur.

Kaup Ísfisks á húsnæðinu á Akranesi tryggja áframhaldandi starfsemi þar og nú hefur IceMar bæst í hópinn. IceMar sérhæfir sig í sölu og markaðssetningu sjávarafurða.

„Við höfum á umliðnum árum styrkt okkar hráefnisstöðu með kaupum á hlutum í framleiðslufyrirtækjum en fyrir þessi kaup í Ísfiski hafði félagið fjárfest þriðjungshlut í AG Seafood ehf í Sandgerði sem sérhæfir sig í framleiðslu á flatfiski og einnig helmingshlut í fyrirtækinu ELBU á Spáni sem sérhæfir sig í áframvinnslu á léttsöltuðum þorskafurðum frá Íslandi. Að auki kaupum við afurðir frá öðrum öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi sem hafa sýnt okkur mikið traust í gegnum árin.“

Hann segir fyrirtækið standa sig vel, vera skuldlaust félag og reksturinn hafi gengið vel allt frá stofnun félagsins árið 2003.

„Sturla bróðir minn stofnaði félagið með mér og Teitur bróðir okkar hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2004 eða í 14 ár. Ég keypti Sturlu út úr félaginu árið 2017 en hann hjálpar enn til við sölumálin.“

Kaup þeirra á hlutabréfum í Ísfiski segir hann mega skýra á tvo vegu.

„Við komum inn á réttum tíma í öflugt félag sem er hlaðið reynslu, reiðubúið í mikla framleiðsluaukningu og þekkt fyrir gæðaframleiðslu. Í annan stað sjáum við fram á að geta átt gott samstarf með Ísfiski á markaðsendanum en það er undir okkur í IceMar komið hvernig það mun ganga. Við verðum að kaupa fiskinn á góðu verði og opna dyr inn á spennandi markaði. Vonandi mun það ganga vel enda hagur beggja félaganna að svo verði.“