mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íhuga að fara að handmjólka

17. desember 2009 kl. 12:00

,,Ég get ekki neitað því að ég er alvarlega að pæla í því að fara að handmjólka til að fá verðlaunin. Ég get ekki horft framhjá þeim möguleika að geta aukið kvóta minn um 20% með því að snúa baki við vélvæðingunni og taka upp bala í staðinn.”

Þetta segir Jóhann Rúnar Kristinsson skipstjóri og útgerðarmaður Særifs SH í samtali við Fiskifréttir en Særif er smábátur með beitningarvél. 

Áform sjávarútvegsráðherra um að auka línuívilnun til handa bátum með landbeitta línu hefur gert það að verkum að eigendur beitningarvélabáta í smábátakerfinu, sem ekki njóta neinnar línuívilnunar, eru sumir hverjir farnir að hugleiða að rífa vélarnar úr bátunum og taka upp bala í staðinn til þess að auka kvóta sinn.

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf. gagnrýni einnig þessa þróun í skoðunargrein í Fiskifréttum. ,, Á sama tíma og hugvit þeirra sjómanna sem fyrstir ruddu brautina fyrir sjálfvirkni á línuveiðum smábáta er flutt út til Noregs er hvatinn á Íslandi sá að bakka í balaburðinn vegna þess að til þess þarf fleiri hendur.”

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.