mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Illa horfir með kolmunnastofninn

24. ágúst 2009 kl. 12:29

,,Það lítur illa út með kolmunnastofninn. Nýliðun er léleg og stofninn skreppur saman. Öruggt er að ráðlagður verður frekari niðurskurður kolmunnakvótans fyrir næsta ár sem reyndar var gert ráð fyrir þegar kvótinn í ár var ákveðinn,” segir Arild Slotte sérfræðingur við norsku hafrannsóknastofnunina í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish.

Kolmunnaaflinn í NA-Atlantshafi náði hámarki árið 2004 þegar hann komst í 2,4 milljónir tonna en síðustu árin hefur dregið verulega úr honum. Áætlað er að aflinn verði 550 þúsund tonn á yfirstandandi ári en Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að hann færi ekki yfir 384 þúsund tonn.

Veiðiþjóðirnar báðu fiskifræðinga í fyrra um að leggja mat á hvaða áhrif það hefði á kolmunnastofninn, ef aflinn yrði minnkaður smátt og smátt næstu tíu árin í stað þess að fara í krappan niðurskurð. Vísindamennirnir hafa svarað því til að áhættan af því yrði mikil.

Í frétt Fiskeribladet/Fiskaren kemur fram að hin mikla skerðing sem varð á kolmunnakvótanum á þessu ári hafi leitt til þess að verð fyrir fiskinn hafi hækkað um 40% milli ára. Að meðaltali hafa norskir fiskimenn fengið 1,43 NOK fyrir kílóið af kolmunnanum á þessu ári, jafnvirði 30 íslenskra króna á núverandi gengi.

Kolmunnaafli Íslendinga jókst úr 10 þúsund tonnum árið 1997 í yfir 500 þús. tonn árið 2003. Síðan hefur hann farið verulega minnkandi og var 159 þús. tonn árið 2008. Það sem af er þessu ári hafa íslensk kolmunna skip veitt upp kolmunnakvóta sinn sem var 116 þús. tonn.