mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Írski sjávarútvegsráðherrann barði í borðið

9. desember 2009 kl. 15:19

Ástæðan fyrir því að slitnað hefur upp úr viðræðum ESB og Noregs um fiskveiðisamninga fyrir árið 2010 er sú að írski sjávarútvegsráðherrann barði í borðið. Hann aftók með öllu að írskir sjómenn borguðu fyrir þorskkvóta spánskra frystitogara í Barentshafi með því að gefa eftir kvóta í uppsjávarfiski.

Viðræður Norðmanna og ESB fóru út um þúfur í byrjun vikunnar og ekki er útlit fyrir að samningar náist á næstunni. Er það bagalegt fyrir báða aðila því um miðjan mánuðinn hittast sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna til að ákveða kvóta næsta árs. Hingað til hafa samningar við Norðmenn ávallt legið fyrir á þessum tíma.

Á vefnum IntraFish kemur fram að Tony Killeen, sjávarútvegsráðherra Íra, hafi farið með hraði til Brussel til fundar við Joe Borg, sjávarútvegsstjóra ESB, þegar samningsdrög milli Noregs og ESB lágu fyrir. Þar var gert ráð fyrir að Írar þyrftu að fórna kvóta í uppsjávarfiski í staðinn fyrir þorskkvóta sem ESB-ríkin fengju frá Noregi. Tony Killeen segir að slík skipti á aflaheimildum myndu þýða um 2.500 tonna skerðingu fyrir Írland í hrossamakríl og um 2 þúsund tonna skerðingu í makríl.

Nokkur ESB-ríki hafa þrýst mjög á að skipt yrði á uppsjávarkvóta í staðinn fyrir þorskkvótann, þeirra á meðal Spánn og Portúgal en það eru einmitt þau ríki sem hagnast einna mest á því að fá aðgang að þorskveiðum í lögsögu Norðmanna. Killeen segir að það sé ósanngjarnt og algerlega óviðunandi að írskir sjómenn séu látnir borga fyrir þorskkvóta sem frystitogarar annarra þjóða veiða.