þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ísfélagið: 45.000 tonn af síld og makríl í sumar

10. september 2008 kl. 09:21

Veiðar skipa Ísfélags Vestmannaeyja úr norsk íslenska síldarstofninum hafa gengið vel á þessari vertíð og hafa skip fyrirtækisins alls komið með um 45.000 tonn af afla að landi á vertíðinni.

Makríllinn hefur reynst mikilvægur meðafli og er rúmlega þriðjungur af heildarafla vertíðarinnar.

Makríllinn hefur í fyrsta skipti í sögu Ísfélagsins verið nýttur til manneldis en áhöfnin á Guðmundi VE hefur náð góðum árangri í því að frysta hausskorinn og slógdreginn makríl.

Á heimasíðu Ísfélagsins kemur fram að reksturinn í Vestmannaeyjum hafi verið með rólegra móti í sumar, aðeins tvær landanir í fiskimjölsverksmiðjunni FES í júní og júlí en bolfiskvinnsla var í frystihúsinu fram að sumarfríi í lok júlí.

Bolfiskvinnsla í frystihúsinu er nú farin af stað aftur af fullum krafti og starfsmenn í FES eru í óða önn að undirbúa verksmiðjuna fyrir á komandi síldarvertíð.

Á Þórshöfn hefur aftur á móti verið vertíð frá því eftir sjómannadag og búið að framleiða rúmlega 8.000 tonn af mjöli og um 6.500 tonn af lýsi frá því í byrjun maí. Kúffiskvinnsla hefur verið í gangi síðan í vetur/vor.