fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslendingar 16. stærsta fiskveiðiþjóðin

18. desember 2009 kl. 10:56

Íslendingar voru 16. stærsta fiskveiðiþjóðin árið 2007 með 1.399 þúsund tonna afla, samkvæmt tölum FAO sem Hagstofa Íslands hefur birt. Það ár nam heimsaflinn liðlega 90 milljónum tonna.

Kínverjar bera nú sem fyrr höfuð og herðar yfir aðrar fiskveiðiþjóðir. Þeir veiddu 14,7 milljónir tonna árið 2007 eða tvöfalt meira en Perúmenn sem voru í öðru sæti með 7,2 milljónir tonna. Þriðja í röðinni var Indónesía með 4,9 milljónir tonna, fjórðu Bandaríkin með 4,8 milljónir og fimmta Japan með 4,2 milljónir tonna.

Af Evrópuþjóðum fiskuðu Norðmenn einir meira en Íslendingar eða 2,4 milljónir tonna og voru í 11. sæti á þessum lista. Næsta Evrópuþjóð á eftir Íslendingum var Spánverjar sem veiddu 809 þús. tonn árið 2007 og eru í 23. sæti.

Nánari upplýsingar á vef Hagstofunnar, HÉR