miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Íslenskur þorskur í grænlenskri lögsögu er 2-3% af heildarvísitölu þorsks

18. desember 2008 kl. 09:49

Íslenskur þorskur á Dohrnbankasvæðinu í grænlenskri lögsögu reyndist vera 2 til 3 prósent af heildarvísitölu þorsks sem mældist í haustralli Hafrannsóknastofnunar. Hér gætu verið um 6-9 þúsund tonn að ræða.

Þessar upplýsingar koma fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

„Okkur fannst áhugavert að sjá hvað þorskurinn sem fékkst í grænlensku lögsögunni vex hratt og er í góðum holdum. Hér er aðallega um 5 og 6 ára fisk að ræða. Slægður 70 sentímetra langur þorskur var til dæmis um 15% þyngri en þorskur sem veiddist annars staðar í stofnmælingu að hausti,“ sagði Björn Ævarr Steinarsson, sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafrannsóknastofnunar, í samtali við Fiskifréttir.

„Við teljum miklar líkur vera á því að þorskur sem er á Dohrnbankasvæðinu sé af íslenskum uppruna og að þetta sé þorskur sem fari héðan í fæðuleit og komi til baka til hrygningar. Þessi þorskur er mjög frábrugðinn þeim þorski við Austur-Grænland sem heldur sig sunnan 63. gráðu. Sá þorskur  hefur allt aðra lengdardreifingu og vex mun hægar,“ sagði Björn Ævarr.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum í dag.