föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jákvæð teikn á lofti

Guðjón Guðmundsson
14. október 2018 kl. 08:00

Rafsuðumaður að störfum í slipp Stálsmiðjunnar. MYND/HÖRÐUR KRISTJÁNSSON

Menntamálaráðherra lofar skýrri stefnumörkum í iðnmenntun

Stöðug eftirspurn hefur verið eftir fagmenntuðum málmiðnaðarmönnum síðastliðin þrjú ár og hefur aukist með hverju ári. Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, segir reyndar að strax fyrir hrun hafi verð farið að bera á vöntun á mannskap með þessa menntum. Með falli krónunnar batnaði staða iðnfyrirtækja í erlendum verkefnum og enn frekari skortur varð á málmiðnaðarmönnum.

Hann segir að þessi staða hafi leitt til launaskriðs. „Störf innan bílgreinanna voru betur borguð hér áður fyrr og þá voru tíðkuðust taxtalaun í öðrum greinum málmiðna. En nú hafa þessar greinar farið fram úr bílgreinunum. Þar með ætti að vera orðið eftirsóknarverðara að sækja í þetta nám,“ segir Jóhann Rúnar.

Hann segir að frá 2013 hafi orðið aukning í aðsókn í grunndeild málmiðnaðar en talsvert brottfall hafi verið. Síðastliðin tvö ár hafi hins vegar orðið fækkun í aðsókn í grunndeildirnar út um allt land. Á Eyjafjarðarsvæðinu verða afhent 10 sveinsbréf á næstunni en það er talsvert færri bréf en oft áður. Þau hafa verið upp undir 20-25 á ári. Sú grein sem stendur hvað höllustum fæti er blikksmíði og rennismíði.

Taxtar færðir nær launum

„Við sjáum þó jákvæð teikn á lofti núna. Síðasta hálfa árið hefur umræðan þróast og við heyrum jákvæðar umsagnir gagnvart iðngreinunum. Menntamálaráðherra er sömuleiðis með nýja sýn á málið sem við byggjum vonir við. Það verður fundur með öllum iðnaðarfélögum landsins og menntamálaráðherra í næstu viku og hún hefur lofað skýrum svörum um stefnumörkun í þessum málum. Menntamálaráðherra er sammála okkur í því að það þurfi að efna til átaks og kynna námið fyrir ungu fólki,“ segir Jóhann Rúnar.

Hann bindur vonir við að sú neikvæða sýn sem ungt fólk hafi haft á iðngreinarnar breytist og það muni átta sig á því námið snýst að verulegu leyti um öra þróun í tækni, tæknilausnir og eigi lítið skylt við þá staðalímynd af óhreinindum og vosbúð sem lengi hafi loðað við greinina. Auk þess séu þessi störf orðin ágætlega launuð.

„Við höfum verið að færa taxtana nær greiddum launum og það hjálpar til. Áður horfðu menn til launataxtanna og misstu áhugann jafnvel þótt taxtarnir endurspegluðu ekki launin.“

Félag málmiðnaðarmanna hefur fullan skilning á því að iðnfyrirtækin nýti sér erlent vinnuafl við þessar aðstæður. Það hafi verið vandað vel til verka innan málmiðnaðargreinanna og ekki borið á málum svipuðum þeim sem hafa komið upp í byggingariðnaði eða ferðaþjónustunni, svo dæmi séu tekin.