þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jöfn og góð veiði á úthafskarfamiðunum

25. maí 2009 kl. 12:23

,,Það er jöfn og góð úthafskarfaveiði hérna, eitthvað í kringum tvo tonn á togtímann. Það magn dugar flestum í vinnsluna um borð,” sagði Trausti Egilsson skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú í morgun.

Trausti sagði að 12 skip væru nú að veiðum innan lögsögumarkanna, þar af ellefu íslensk og eitt grænlenskt, Polar Nanok, sem hefur leyfi til veiða í íslenskri lögsögu. Trausti sagði að skipin veiddu úr einum bletti sem væri hreyfingu norðaustur á bóginn. Skipin færu inn í blettinn hvert á eftir öðru eins og jafnan tíðkast á þessum veiðum. Allt væri þetta með hefðbundnum hætti. Að sögn Trausta fara veiðarnar fram á 360-400 faðma dýpi og karfinn er prýðisgóður.

,,Rétt utan við lögsögumörkin er svo hópur erlendra skipa að veiðum og þriðji hópurinn er töluvert sunnar eða á 58.-59. gráðu norður og 30. gráðu vestur. Sá síðastnefndi er að veiða hinn raunverulega úthafskarfa, það er að segja karfann í efri lögum sjávar, en við hinir erum í djúpkarfanum,” sagði Trausti.

Sú var tíðin að úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg byrjuðu í aprílmánuði en nú hófust veiðar íslensku skipanna fyrir um það bil viku eða á svipuðum tíma og í fyrra. Mun minni afli hefur verið á þessum veiðum síðustu árin en hann var áður og stundum ekki náðst að veiða upp í útgefna kvóta.

Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar voru alls 39 skip á úthafskarfaveiðum í morgun, þar af 12 inni í íslensku lögsögunni eins og áður sagði, 18 rétt utan við lögsögumörkin og 9 skip á syðsta svæðinu. Auk Íslendinga eru þarna skip frá Rússlandi, Spáni, Portúgal og Litháen.