sunnudagur, 24. mars 2019
 

Neita að afhenda Herjólf – vilja aukagreiðslur

Vegagerðin hefur hafnað kröfum skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. sem gerir kröfur um viðbótargreiðslu þvert á alla samninga um lokaskil verksins og aukaverk. Vegagerðin hefur leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð.

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.

Jafn og góður afli frá áramótum

Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri.

Mikill vöxtur í fiskeldi

Framleidd voru 19 þúsund tonn í fiskeldi á Íslandi árið 2018 og hefur framleiðslan nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Þar af var framleiðslan í laxeldi um 13,5 þúsund tonn.

Varpa nýju ljósi á þróunartengsl þorskfiska

Í greininni eru þróunartengsl einstakra tegunda rakin nánar, t.d. hvernig Atlantshafsþorskur blandaðist við tegundir í Íshafinu og úr varð vagleygði ufsi eða Alaskaufsi


TölublöðVenjuleg útgáfa

Jöfn og góð veiði á úthafskarfamiðunum

25. maí 2009 kl. 12:23

,,Það er jöfn og góð úthafskarfaveiði hérna, eitthvað í kringum tvo tonn á togtímann. Það magn dugar flestum í vinnsluna um borð,” sagði Trausti Egilsson skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú í morgun.

Trausti sagði að 12 skip væru nú að veiðum innan lögsögumarkanna, þar af ellefu íslensk og eitt grænlenskt, Polar Nanok, sem hefur leyfi til veiða í íslenskri lögsögu. Trausti sagði að skipin veiddu úr einum bletti sem væri hreyfingu norðaustur á bóginn. Skipin færu inn í blettinn hvert á eftir öðru eins og jafnan tíðkast á þessum veiðum. Allt væri þetta með hefðbundnum hætti. Að sögn Trausta fara veiðarnar fram á 360-400 faðma dýpi og karfinn er prýðisgóður.

,,Rétt utan við lögsögumörkin er svo hópur erlendra skipa að veiðum og þriðji hópurinn er töluvert sunnar eða á 58.-59. gráðu norður og 30. gráðu vestur. Sá síðastnefndi er að veiða hinn raunverulega úthafskarfa, það er að segja karfann í efri lögum sjávar, en við hinir erum í djúpkarfanum,” sagði Trausti.

Sú var tíðin að úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg byrjuðu í aprílmánuði en nú hófust veiðar íslensku skipanna fyrir um það bil viku eða á svipuðum tíma og í fyrra. Mun minni afli hefur verið á þessum veiðum síðustu árin en hann var áður og stundum ekki náðst að veiða upp í útgefna kvóta.

Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar voru alls 39 skip á úthafskarfaveiðum í morgun, þar af 12 inni í íslensku lögsögunni eins og áður sagði, 18 rétt utan við lögsögumörkin og 9 skip á syðsta svæðinu. Auk Íslendinga eru þarna skip frá Rússlandi, Spáni, Portúgal og Litháen.