þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Jón á Hofi á humarveiðum í Jökuldýpinu

5. október 2017 kl. 16:00

Einar Geir Guðnason skipstjóri á Jóni á Hofi segir þetta með lélegri humarvertíðum í seinni tíð. MYND/HAG

Ætla að reyna fyrir sér í Kolluál


 Humarvertíðin nú er með þeim lakari á seinni árum, að mati Einars Geirs Guðnasonar, skipstjóra á Jóni á Hofi, humarbát Ramma hf. í Þorlákshöfn. Jón á Hofi landaði á mánudag 41 kari af humri, eða um 1.680 kg, og segir Einar Geir það með því mesta í langan tíma. Til stóð að fara í Kolluál og reyna fyrir sér þar en línubátar hafa verið að fá þar humar á línu. Með í veiðiferðinni verður sérfræðingur frá Hafrannsóknastofnun.

„Það var eitthvað aðeins bjartara yfir þessu núna en verið hefur undanfarið. Þetta hefur verið einstaklega rólegt. Við vorum í Jökuldýpinu sem er eina svæðið sem eitthvað gefur þessa dagana. Það var reyndar bara ágæt veiði í þessum túr en það hefur ekki aldeilis verið þannig. Þetta er með lélegri vertíðum í seinni tíð en í gamla daga gátu þær reyndar líka orðið býsna lélegar,“ segir Einar Geir.

Hann segir lítið af smáhumar í aflanum og uppistaðan er stór humar. Í vor hafi aðeins borið á smáhumar fyrir austan og menn því verið aðeins bjartsýnni en það hafi þó ekki verið mikið og gekk hratt yfir.

Vantar marga árganga inn í veiðina

„Á tímabili í byrjun vertíðarinnar var maður að gæla við það að það sæust merki um einhverja nýliðun en þetta veldur mér og mörgum öðrum ugg. Það er eins og það vanti marga árganga inn í veiðina. Oft er það þannig að þegar það er lítil veiði er uppistaða aflans stór humar. Svo þegar veiðin eykst þá er aukningin mest í smáhumri. Í næturhölum er oft smærri humar. Það er eins og það sé munur á því hvenær hann gefur sig til. Þannig að hvort þessi smærri humar sé bara ekki til eða hvort ekki séu skilyrði fyrir því að veiða hann veit maður ekki. Humar er brellinn skepna.“

Humarbátar hafa ekki reynt fyrir sér í Kolluál en komið hefur humar þar með öðrum veiðarfærum.

„Í nokkur ár hafa menn fengið humar á línuna þarna. En þótt það sé hugsanlega eitthvert magn af humri þarna er ekkert víst að hann sé veiðanlegur. Það er samt þess virði að prófa þetta. Ef við fáum ekkert þarna förum við aftur í Jökuldýpið.“