fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kaldur sjór ætti að verja Ísland

Svavar Hávarðsson
8. febrúar 2018 kl. 07:00

Round goby. Mynd/Magnús Thorlacius

Ágeng fisktegund - round goby - dreifir sér hratt beggja vegna Atlantsála.

Ágeng fisktegund sem kallast round goby – en á sér ekkert íslenskt heiti - hefur á undanförnum árum dreift sér hratt á meginlandi Evrópu og í Norður Ameríku og valdið þar skaða. Ekki er útilokað að tegundin nái Íslandsströndum þó aðstæður hér henti henni ekki vel.

Round goby (Neogobius melanostomus) er upprunnin í Svartahafi og Kaspíahafi. Í kringum 1990 tók hún að berast með kjölvatni skipa og fannst það ár syðst í Eystrasaltinu og í Norður Ameríku. Síðan þá hefur hún dreift sér um mikinn hluta áa og vatna á meginlandi Evrópu og Norður Ameríku. Þar veldur hún usla, meðal annars með því að fjölga sér hratt og éta egg og seiði annarra fisktegunda ásamt því að éta krækling og aðrar tegundir sem sía vatnið með þeim afleiðingum að vatn sem áður var tært verður gruggugt.

Í nýlegri grein sem starfsmaður Hafrannsóknastofnunar, Magnús Thorlacius, birti í tímaritinu Limnology and Oceanography voru kynnt gögn sem varpa ljósi á hlutverk svipgerða við dreifingu þessarar ágengu fisktegundar eftir innrás á framandi stað, en svipgerðarsvörun verður er sama arfgerðin myndar mismunandi svipgerð eftir umhverfi, enda er atferli og líkamslögun fiska að hluta til háð umhverfisþáttum t.d. hita, fæðuframboði og fæðusamsetningu eða fæðunámi.

1.500 fiskar merktir
Tvö svæði í Eystrasaltinu urðu fyrir valinu þar sem tegundin hafði numið land – árið 2010 í Visby í Svíþjóð og Mariehamn á Álandseyjum árið 2011. Veitt var í álagildrur með stöðluðum hætti tvisvar til þrisvar á sumri árin 2013 og 2014 þar sem allir round goby voru merktir, um það bil 1.500 fiskar - að frátöldum 69 fiskum sem fluttir voru lifandi til Umeå til atferlistilrauna.

Afli á sóknareiningu reyndist svipaður yfir bæði árin í höfnunum á meðan mikillar aukningar varð vart á milli ára á svæðunum þar í kring. Þetta gefur til kynna að 3-5 ár líði frá því að þessi tegund nemur land þar til hún fer að dreifa sér í auknu mæli til nærliggjandi svæða.

Í niðurstöðum segir að komið hafi í ljós að einstaklingar sem velja að vera út af fyrir sig frekar en í hópum finnast í meira mæli á nýjum svæðum heldur en gömlum. Sýnt hefur verið fram á að svona hegðunarmynstur er hluti af svipgerð einstaklingsins (breytist ekki með tímanum) og sé arfgeng. Því er talið að þessi hegðun verði ýktari eftir því sem tegundin hefur ferðast lengra, þar sem einstaklingar sem bera þessa svipgerð virðast dreifa sér á undan þeim sem bera hana ekki, og eignast því í auknu mæli afkvæmi með sambærilegum einstaklingum. Tegundin fjölgar sér hratt á nýjum svæðum og með auknu hlutfalli af einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir háum þéttleika má áætla að tíminn sem líður frá innrás og þar til stofninn heldur áfram að dreifa sér styttist eftir því sem tegundin ferðast lengra.

Helsta ógnin
Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um að undanförnu er vitað um sextán framandi tegundir sjávarlífvera við Ísland. Þeir Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, gerðu á dögunum landnám og uppgang grjótkrabba að umtalsefni á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í máli Halldórs kom fram að framandi tegundir eru þær sem lifa utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis síns og hafa verið fluttar af mannavöldum, og þá annað hvort viljandi eða óviljandi. Þessi þróun, landnám þessara tegunda, er óæskileg og í sumum tilfellum grafalvarleg. Því framandi tegund getur orðið ágeng – haft mikil og langvarandi áhrif á svæði sem þær nema með neikvæðum áhrifum á umhverfi, efnahag viðkomandi svæðis eða almannaheill. Eru framandi tegundir metnar sem önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika á eftir hreinni og klárri búsvæðaeyðingu.

Erum við í skjóli?
En er einhver ástæða til að halda að þessi tiltekna fisktegund geti ekki tekið sér bólfestu hérlendis – borist hingað með kjölfestuvatni t.d. líkt og grjótkrabbi. Eða eru aðstæður hér við Ísland með þeim hætti að tegundin gæti ekki náð hér fótfestu?

Magnús segir að tegundin þoli ekki seltuna í Atlantshafinu (~35 ppt) en hefur fundist í mest 22 ppt.

„Vissulega er hætt við því að hún berist hingað með kjölfestuvatni þar sem uppruninn er í Svartahafi og Kaspíahafi og tegundin búin að berast til Norður Ameríku og til Eystrasaltsins með kjölfestuvatni. Hingað til hefur hún ekki fundist nema einstaka fiskur við hafnir sem eru tengdar Íslandi en útbreiðslan eykst frekar hratt þannig að líkurnar gætu aukist með tímanum. Einstaka fiskur til dæmis fundist í Varberg í Svíþjóð en Samskip er með siglingar þaðan til Reykjavíkur. Einnig hefur tegundin fundist við Rotterdam en bara í ferskvatni í votlendinu inni í landi, ekki í höfninni sjálfri. Þannig séð er möguleiki á að Elliðaárnar þynni út seltuna við Sundahöfn nægilega til að hún þrauki í einhvern tíma þar, en tegundin er talin halda til á meira dýpi yfir vetrarmánuðina. Við Ísland hindrar seltan slíkt far,“ segir Magnús.

Magnús bætir við að round goby haldi til og fjölgi sér á 0-5 metra dýpi þar sem er stórgrýtt yfir sumartímann og því auðvelt að athuga hvort hún sé til staðar yfir sumarmánuðina.

„Það er ekkert rannsóknarverkefni í gangi til að fylgjast með henni en það er að einhverju leyti fylgst með grjótkrabbanum og flundrunni. Round goby hefur veitt flundru samkeppni þar sem hún er upprunaleg og round goby gerir innrás þannig að við flundrurannsóknir í og við ár yrði round goby fljótt vart ef hún næði fótfestu hérna.“