mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kolmunni tekur við af loðnunni

28. mars 2008 kl. 10:03

Um miðja vikuna voru sjö íslensk skip að kolmunnaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Íslensku skipin héldu þangað um og eftir miðjan mars þegar loðnuvertíðinni hér heima lauk. Fleiri skip eru væntanleg á miðin.   Veiðin var góð fyrstu dagana en eitthvað hafði dregið úr henni, að því er Haukur Björnsson, framkvæmdastjóri Eskju, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Skip Eskju, Jón Kjartansson SU og Aðalsteinn Jónsson SU eru á kolmunnaveiðum. Áhersla er lögð á að frysta kolmunnann um borð í Aðalsteini.

,,Veiðarnar eru svipaðar og á sama tíma í fyrra og hér er um þokkalegan kolmunna að ræða. Verð á frystum kolmunna hefur hækkað en markaðurinn er viðkvæmur og hann þolir ekki mikið framboð,“ sagði Haukur.

Í janúar og byrjun febrúar veiddu íslensk skip tæp 19 þúsund tonn af kolmunna syðst í færeysku lögsögunni áður en loðnuvertíðin hófst fyrir alvöru.