sunnudagur, 22. júlí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komnir með tæp 200 tonn – mest grálúðu

9. september 2017 kl. 08:00

Góð reynsla af nýju Þórsnesi SH

„Við vorum að leggja að bryggju og þá er maður alltaf kátur,“ segir Margeir Jóhannesson, skipstjóri á Þórsnesi SH 109 frá Stykkishólmi. Skipið kom til Stykkishólms um miðjan júní og leysti þá af hólmi eldra Þórsnes. Margeir segir mikil og góð viðbrigði að vera á nýja skipinu.

Nýja Þórsnesið var smíðað í Noregi 1996 og eftir heimkomuna var ráðist í að breyta millidekkinu. Síðan hefur það verið við grásleppuveiðar í net. Landað er á Akureyri.

 

Nýtt Þórsnes er svipuð smíði og Örvar SH og Tjaldur SH en einum og hálfum metra breiðara. Eldra Þórsnes hafði verið að veiða 2.600-2.700 tonn á ári. Búist er við svipaðri veiði á nýja skipið nema hvað aðrar áherslur verða í tegundir og líklegt að skipst verði á þorskheimildum fyrir grálúðu.

Gott sjóskip

„Nýja skipið reynist mjög vel. Þetta eru mikil viðbrigði frá eldra skipinu sem þó þjónaði okkur þó vel á sínum tíma. En þetta er allt annað mál og sérstaklega er aðbúnaðurinn fyrir mannskapinn betri. Hérna eru allir með eins manns klefa með salerni og baðaðstöðu og setustofurnar eru mun stærri. Skipið er líka gott sjóskip. Við höfum reyndar ekki lent í neinum veðurofsa, bara smá kaldafýlu,“ segir Margeir.

16 manns eru í áhöfn Þórsnes. Grásleppan er fryst um borð en nú stendur til að bæta við frystitækjum til þess að auka afkastagetuna um borð. Skipið verður því frá veiðum fram í næstu viku.

„Við frystum ekki allan sólarhringinn heldur höfum við stoppað á nóttunni. Við erum á netum og getum því ekki staðið í þessu að næturlagi. Við höfum verið að frysta sjö tonn á sólarhring en ætlum upp í tíu tonn eftir breytingarnar,“ segir Margeir.

 

Framundan er úthald í 16 daga og fjóra daga í landi. Stefnt er að vera í landi ávallt þriðju hverju helgi. Frá því Þórsnesið kom til landsins hefur verið farið í tvo tveggja vikna túra og veiðin hefur verið ágæt úti fyrir Norðausturlandi. Í fyrri túrnum voru fryst um 90 tonn og um 100 tonn núna.