miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kristján Loftsson: Hvalirnir bíða vonandi eftir okkur

18. febrúar 2009 kl. 16:44

,,Við höfum verið að undirbúa hvalveiðar síðastliðin tvö ár og við höldum því áfram af enn meiri krafti en áður. Við verðum með tvö skip á veiðum og þær hefjast að líkindum einhvern tímann í júní,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við Fiskifréttir.

Kristján lét þessi orð falla er hann var spurður um næstu skref í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að afturkalla ekki leyfi til hvalveiða í ár.

“Auðvitað er sjálfsagt mál að hefja hvalveiðar og það hefði átt að gerast miklu fyrr. Ég treysti mér þó ekki til að segja um það fyrirfram hver ákvörðun ráðherra yrði enda er ómögulegt að botna í pólitíkinni á Íslandi. Það var ástæðulaust að hætta hvalveiðum hér við land á sínum tíma. Segja má að þetta sé komið í samt lag aftur,“ sagði Kristján ennfremur.

Kvótinn í ár er 150 langreyðar en Kristján sagði að það kæmi í ljós þegar nær drægi hve mikið þeir hygðust veiða. ,,Hvalirnir bíða vonandi eftir okkur,“ sagði Kristján að lokum.