sunnudagur, 27. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Krónan helsti óvissuþátturinn

13. júlí 2017 kl. 14:05

Marel útvegar búnað til laxavinnslu.

Heildarvelta íslenskra tæknifyrirtækja tengd sjávarútvegi nálgast 70 milljarða á ári

Vöxtur tæknifyrirtækja sem þjóna sjávarútvegi var á bilinu fimm til tíu prósent á síðasta ári -  ívið minni en árið á undan. Skýringin á minni vexti er styrking krónunnar, sem kemur þó misjafnlega við einstök fyrirtæki þar sem vöxtur stórra og meðalstórra fyrirtækja eykst stórum. Dæmi eru um minni fyrirtæki sem standa í stað eða velta þeirra dregst saman. Heildarvelta tæknifyrirtækja sem tengjast greininni nálgast 70 milljarða króna.

Þetta sýnir ný greining Íslenska sjávarklasans á stöðu og horfum íslenskra tækifyrirtækja sem þjóna sjávarútvegi, og er sú sjötta í röðinni sem Sjávarklasinn sendir frá sér um efnið.

Þrátt fyrir að þau fyrirtæki sem hér um ræðir skipti tugum, hefur starfsemi þeirra ekki vakið þá athygli sem tilefni gefur til. Við gerð greiningar sinnar hafði Sjávarklasinn samband við 60 tæknifyrirtæki sem öll selja vörur sínar undir eigin vörumerki og flest stunda útflutning. Gögn um veltu og afkomu þeirra, auk upplýsinga frá stjórnendum, sýna vöxt þeirra fyrirtækja á síðasta ári sem komið hafa undir sig fótunum en að þau minni berjast í bökkum. Vöxtur þeirra stærri er í einstaka tilfellum gríðarlegur innan svo skamms tíma og dæmi um 30 til 40% vöxt.

Í viðtölum Sjávarklasans við forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna kom fram að þeir meta það svo að horfur séu á nokkrum samdrætti innanlands í sölu búnaðar á þessu ári en þó ekki síst á árinu 2018. Kemur þar fyrst og fremst til styrking krónunnar sem hefur haft veruleg áhrif á sjávarútveginn. Fáir stjórnendur telja að krónan eigi eftir að veikjast umtalsvert á næstu tveim árum og fremur styrkjast enn frekar. Versnandi afkoma með sterkara gengi er þannig líkleg til að draga verulega úr fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja í nýrri tækni og búnaði. Það er helst í fjárfestingum í frekari sjálfvirknivæðingu sem líklegt er að minnsti samdráttur verði í.

Stór og sterkur
Greinilegt er að yfirburðir stærðarinnar telja. Er það mat Sjávarklasans að glögglega komi í ljós styrkleikur þess að geta boðið heildarlausnir og öflugt þjónustunet.

Sérstaklega er bent á í greiningunni að um leið og stærstu fyrirtækin eflast þá hafa þau lagt meiri áherslu á markaðs- og ímyndarmál. Flest tæknifyrirtækin hafa hingað til aðallega kynnt sig á sölusýningum og síðan með heimsóknum í fyrirtæki. En eftir því sem fyrirtækin hafa stækkað þá hafa þau farið meira í markvissa auglýsingastarfsemi af ýmsu tagi – sem byggir á aukinni veltu og að lausnir þeirra verða heildstæðari.

Sjávarklasinn hefur talað fyrir samstarfi fyrirtækja í haftengdum greinum um árabil, og á það við um tæknifyrirtækin eins og önnur. Aukin samvinna er staðreynd og hefur skilað miklum árangri. Það varpar ljósi á stöðnun lítilla tæknifyrirtækja að bróðurpart þeirra hefur ekki lánast að auka samstarf sín í milli eða að sameinast.

„Í mörgum tilfellum hafa eigendur þessara fyrirtækja oft yfirburða þekkingu og/eða -færni á tilteknum sviðum og hafa í kjölfarið búið til fyrirtæki utan um þessa kunnáttu sína. Mörg þessara tæknifyrirtækja bjóða afburðalausnir en sökum smæðar þeirra eru þau ekki í stakk búin til að markaðssetja vörur sínar á stærri mörkuðum og erlendir kaupendur kunna að óttast að þau geti ekki sinnt viðhaldi og þjónustu eins og ákjósanlegt er. Aukin samvinna lítilla fyrirtækja og jafnvel víðtækur samruni er að mati okkar afar brýn fyrir mörg þessara fyrirtækja hafi þau á annað borð áhuga á að vaxa á komandi árum,“ er niðurstaða greinenda Sjávarklasans.

Marel lagði línuna
Þeir segja að mörg þeirra tæknifyrirtækja sem eru í sjávarklasanum hafa fylgt stefnu sem Marel markaði hérlendis - að víkka út starfsemi sína og sinna í auknu mæli annarri matvælaframleiðslu. Nú eru mörg íslensk tæknifyrirtæki, sem áður sinntu einungis sjávarútvegi, að bjóða sértækar lausnir fyrir kjúklinga- og svínaiðnaðinn. Þær snerta vinnslu en einnig sérhæfðar lausnir í hreinsun, kælingu, próteingerð, róbótum, verksmiðjustýringu svo eitthvað sé nefnt. Sömu sögu er að segja af vaxandi þjónustu tæknifyrirtækja við fiskeldi hér og víða um heim. Hér eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan tækniiðnað, að mati Sjávarklasans .

Nýliðun mikilvæg
Gott gengi margra tæknifyrirtækjanna á árinu 2016 má rekja til aukinna fjárfestinga íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna bæði í útgerð og vinnslu. Fjárfestingar í skipum hafa verið miklar og endurnýjun í fiskvinnslu á landi einnig. Þrátt fyrir að hönnun skipanna sé á herðum íslenskra aðila er sáralítil fjölgun í störfum á þessu sviði hérlendis.

„Ástæða er til að skoða hvernig megi efla innlenda þekkingu og fjölga störfum á þessu sviði innanlands. Lítil endurnýjun skipahönnuða og -verkfræðinga hérlendis er áhyggjuefni. Slíkt getur verið mikilvægt til að Íslendingar geti boðið heildarlausnir og jafnvel nýtt þekkingu sína við útgerð á öðrum sviðum skipahönnunar erlendis,“ segir í greiningunni.

Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, bætir við að gera þurfi átak til að fá ungt fólk í skipahönnun og - tækni.

„Við höfum mikil tækifæri til að leiða hönnun í umhverfisvænni skipum og bátum í heiminum alveg eins og við gerum með millidekkið í skipum. Til þess þurfum við fleiri verkfræðinga og Rannís verður að trúa á að íslenskir hönnuðir og verkfræðingar geti verið framarlega á þessu sviði. Flestum umsóknum um styrki vegna íslenskra rafskipa hefur verið hafnað. Svo gæti verið klókt að Samtök í sjávarútvegi styrktu nemendur á þessu sviði,“ segir Þór.