mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsbankinn ábyrgist rekstur Festi ehf. í 2 mánuði ? vilja selja félagið sem fyrst

6. nóvember 2009 kl. 17:53

Fulltrúar Landsbankans, sem var einn þeirra aðila sem lagt höfðu fram kröfu um að útgerðarfélagið Festi í Hafnarfirði yrði gert gjaldþrotaskipta í gær, átti í dag fund með Jóni Auðunni Jónssyni, skiptastjóra og greindu honum frá óskum bankans um að fyrirtækið yrði rekið áfram í allt að 2 mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði Festi sem fyrr segir gjaldþrota í gær.

Fram kemur í tilkynningunni að skiptastjóra var jafnframt greint frá því að Landsbankinn myndi frá og með 6. nóvember, ábyrgjast að reksturinn héldi áfram og starfsfólk fengi greidd laun á þeim tíma. Skiptastjóri féllst á þessar hugmyndir bankans fyrir hönd þrotabúsins.

Þá kemur fram að fulltrúar Landsbankans gengu einnig á fund starfsfólks og tilkynntu því um fyrirætlanir bankans . Nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn að félaginu á mánudag.

„Vilji bankans er að félagið verði selt eins fljótt og auðið er, rekstur og eignir saman ef nokkur kostur er. Mat bankans er að verðmæti félagsins sé best tryggt með áframhaldandi rekstri. Væntanlega mun skiptastjóri auglýsa fyrirtækið til sölu,“ segir í tilkynningunni.