mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Laxasprengja í Noregi

6. júlí 2009 kl. 15:21

Útflutningur á laxi frá Noregi nam 10,7 milljörðum norskra króna (210 milljarðar íslenskar) á fyrri helmingi ársins og jókst um 2,4 milljarða frá sama tíma í fyrra.

Þetta er í fyrsta sinn sem útflutningsverðmæti lax fer yfir 10 milljarða á hálfu ári, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren. Til samanburðar má geta þess að Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir 170 milljarða á síðasta ári. Þessi gríðarlegi vöxtur í útflutningi á laxi sýnir að norskur sjávarútvegur er vel í stakk búinn til að auka markaðshlutdeild sína og fá hæsta verð sem er í boð, en heimsmarkaðurinn með lax einkennist af samdrætti á framboði, er haft eftir talsmanni norska fiskútflutningsráðsins.

Verð fyrir ferskan lax á tímabilinu var um 31,7 krónur norskar á kíló að meðaltali (634 krónur íslenskar) sem er 5,44 krónum hærra verð en fékkst á sama tíma í fyrra. Í júní var meðalverðið 35,24 krónur á kíló. Frakkland og Pólland eru þau lönd sem kaupa mestan ferskan lax af Norðmönnum.

Í heild jókst útflutningur á laxi frá Noregi um 8% í tonnum talið. Aukningin til ESB-landa var 7%. Þá varð nokkur aukning til annarra markaðslanda en útflutningur til Austur-Evrópulanda dróst saman um 6%.

Útflutningur á laxi frá Noregi til Bandaríkjanna sló þó öll met, Kaninn sporðrenndi 16 þúsund tonnum af ferskum laxaflökum frá Noregi fyrstu sex mánuði ársins. Aukning þangað var 277% í verðmætum og 238% í magni.