mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lífrænt sjávarfang og aðrar lífrænar matvörur á undanhaldi

11. ágúst 2009 kl. 12:00

Neytendur víða um heim hafa dregið úr kaupum á svokölluðu lífrænu (organic) sjávarfangi og lífrænum matvælum yfirleitt, að því er alþjóðlega könnunarfyrirtækið AC Nielsen hefur upplýst, en fyrirtækið stendur fyrir könnunum á innkaupavenjum neytenda í yfir 100 löndum.

Enda þótt nokkrar þjóðir, þeirra á meðal Tyrkir, hafi aukið framleiðslu og neyslu á lífrænu sjávarfangi, er þróunin í hina áttina í flestum öðrum ríkjum. Meginástæðan er rakin til efnahagskreppunnar sem leitt hefur til hækkunar á verði lífrænnar matvöru. Einnig stafar samdrátturinn af því að hreinar og klárar skilgreiningar skortir á því hvað sé lífrænt og hvað ekki, auk þess sem upplýsingar um gagnsemi lífrænna matvæla eru misvísandi.

Haft er eftir Jonathan Banks, eins af forstjórum AC Nielsen, á sjávarútvegsvefnum IntraFish að neytendur eigi erfitt með að skilja hvað átt sé við með hugtakinu lífrænt sjávarfang. Hann nefnir sem dæmi að ekki sé heimilt að merkja kóngalax, sem veiddur sé í ísköldum sjó við Alaska, sem lífræna sjávarafurð. Á hinn bóginn sé lax alinn upp í kvíum við vesturströnd Kanada á verksmiðjuframleiddu fóðri merktur sem lífrænn.

,,Neytendur eiga auðvelt með að skilja að kjöt af alifuglum sem ganga lausir geti talist lífrænt. Hins vegar er ekki hægt að kalla línuveiddan fisk lífrænan af því að ekki er vitað hvað hann hefur étið. Þar af leiðandi vaknar sú spurning hvort eingöngu sé unnt að kalla sjávarafurðir lífrænar ef fiskarnir eða dýrin hafi verið alin í kvíum. Þetta eiga flestir neytendur mjög erfitt með að skilja,” segir Banks.