miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lífsspursmál að keyra vextina niður í hvelli

25. febrúar 2009 kl. 16:03

Segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf. segir í viðtali við ríkisútvarpið það vera lífsspursmál að keyra niður vextina í landinu umsvifalaust. Þetta sé ekki aðeins nauðsyn fyrir atvinnulífið, heldur þjóðina alla.

Undanfarna mánuði hafa borist af fréttir af lækkandi fiskverði og aukinni birgðasöfnun framleiðenda hér heima. Guðmundur segir útgerðina ganga ágætlega, segir fyrirsjáanlegt að birgðasöfnun verði mikil á næstu mánuðum þannig að menn verði að vera skynsamir í framleiðslu því menn vilji ekki yfirfylla markaðinn.

Guðmundur vonar að markaðurinn taki við sér á næstunni en gerir sér grein fyrir því að kreppan sé mikil í heiminum. Brýnast sé að keyra vexti niður í 3-4% hér á landi með handafli.

Guðmundur segir þó að vextirnir séu enn ekki orðnir alvarlegt vandamál fyrir útgerðina en eigi eftir að verða það. Þetta sé þegar orðið stórkostlegt vandamál í íslensku samfélagi að búa við þessa okurvexti. Það sé lífsspursmál að keyra vextina niður eins og skot.

Rætt var við Guðmund Kristjánsson í Auðlindinni á Rás 1 í morgun.