fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítið vart við þorsk á togaraslóð

18. apríl 2018 kl. 06:59

Akurey - ein þriggja eyjasystra. Mynd/HB Grandi

Ágæt veiði af gullkarfa og ufsa hjá Akurey AK.

„Það er lokun við suðurströndina vegna hrygningar þorsksins og ég ákvað því að reyna fyrir mér á Vestfjarðamiðum. Það reyndist vera fýluferð og þorskurinn er eitthvað vant við látinn þessa dagana,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey AK, í viðtali við heimasíðu HB Granda.

Þar segir jafnframt:

„Við hófum veiðiferðina á Fjöllunum og þar var að vanda nóg af gullkarfa og við fengum einnig dágóðan ufsaafla. Síðan fórum við á Eldeyjarbankann en þar var lítið að hafa. Minnugir þess að þorskaflinn hafði alveg dottið niður djúpt á Selvogsgrunni, eða fyrir utan 12 mílurnar, þá ákvað ég að prófa Vestfjarðamiðin. Það skilaði ekki neinum árangri og ég býst við að taka eitt til tvö hol úti af Snæfellsjökli á heimleiðinni,“ segir Eiríkur en er rætt var við hann var aflinn í veiðiferðinni um 100 tonn

Þorskveiði virðist almennt ganga illa á togaraslóð þessa dagana. Helga María AK og Engey RE voru búnar að reyna fyrir sér á Vestfjarðamiðum áður en Akurey fór þangað en með takmörkuðum árangri. Að sögn Eiríks berast svo þær fréttir að lítið sé um þorsk í afla togara fyrir austan.