fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítil humarveiði hjá Jóni á Hofi fram að þessu

26. apríl 2018 kl. 06:00

Einar Geir Guðnason, skipstjóri á Jóni á Hofi. MYND/HAG

Segir rannsóknirnar felast í veiðunum

Humarvertíðin hefur farið illa af stað og verr en áður, að mati Einars Geirs Guðnasonar, skipstjóra á humarbátnum Jóni á Hofi. Einar Geir man tímana tvenna og á líklega um 30 humarvertíðir að baki. Hann segir smáhumar vart sjáanlegan lengur en telur samt afleik í stöðunni að setja á veiðibann. Nánast einustu rannsóknirnar á humarstofninum fari fram með veiðum.

„Það er skárra ástandið í augnablikinu og skapleg veiði núna í Lónsdýpinu en þó alls ekki mikil miðað við árstíma. Þetta hefur verið mjög lítið fram að þessu,“ segir Einar Geir.

Farið var í fyrsta róðurinn um miðjan mars og afraksturinn hefur verið alveg frá níu körum upp í um 40. Einar Geir segir það hafa gerst áður að veiðin hafi fallið svona niður.

„En allur samanburður er erfiður því miðin eru orðin svo mikið stærri frá því í gamla daga. Það sem allir hafa áhyggjur af í dag er að það vantar ungviðið. Það er stóra málið en ekki kannski það að veiðin detti niður. Það þekkjum við gömlu jaxlarnir frá því á árum áður.“

Stytta fremur vertíðina

Hann segir að mörg ár síðan hann hafi farið að taka eftir því að á svæðum þar sem var kannski veiði eitt árið endurnýjaði stofninn sig ekki næstu árin á eftir. Það hafi farið að bera á hægari endurnýjun fyrir mjög mörgum árum.

„Lúlli á Æskunni [Björn L. Jónsson], sem er einn reyndasti humarveiðimaður landsins og sennilega sá elsti með fullu viti ennþá, sagði þegar þetta var borið undir hann að hann hefði áður alltaf getað reddað sér með smáhumri. Það er nákvæmlega það sem er óvenjulegt núna að hann er ekki til staðar smáhumarinn.“

Einari Geir líst ekki vel á hugmyndir um veiðibann. Hann kveðst óttast það að verði veiðarnar stöðvaðar með öllu leggist allar rannsóknir niður.

„Rannsóknirnar eru ekki miklar fyrir. Það virðist mikilvægara í þessu þjóðfélagi að verja fjármunum til annarra hluta en til rannsókna á lífsviðurværi okkar. Það gengur auðvitað ekki að ganga endalaust á stofninn. Ég held að betri kostur sé að stytta vertíðina mjög mikið í stað þess að stöðva veiðarnar. Rannsóknirnar fara nefna að stærstum hluta í gegnum veiðarnar. Ég sé ekki fyrir mér að það verði farið í það að dæla út peningum í rannsóknir á humri á næstu árum.“