mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LÍÚ mótmælir útflutningsálagi á ísfisk

9. desember 2009 kl. 15:26

Framkvæmdastjóri LÍÚ, Friðrik J. Arngrímsson, segir nýjar reglur sjávarútvegsráðherra um 5% álag til aflamarks á útflutning ísfisks frá og með 1. janúar næstkomandi fela í sér mismunun. Þær séu jafnframt brot á samningi Íslands og ESB um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Þá megi leiða að því líkum, að þær feli í sér tæknilegar viðskiptahindranir sem gangi í berhögg við EES samninginn um fríverslun með sjávarafurðir til aðildarríkja ESB.

„Við mótmælum þessu útflutningsálagi," segir Friðrik á vef LÍÚ og bendir á að álagið feli í sér mismunun á milli útgerða eftir því hvernig þær ráðstafi aflanum. „Það er margt annað en tímaþátturinn sem hefur áhrif á rýrnun afla frá því hann er veiddur og þar til hann er vigtaður. Því væri rétt að skoða vigtarmálin í heild sinni í stað þess að taka einn þátt þeirra fyrir. Það er vitað að fiskur rýrnar almennt ekki um 5%  við það eitt að vera fluttur á erlendan ísfiskmarkað. Til eru rannsóknir sem sýna að rýrnun er mismunandi eftir einstökum tegundum en hún er t.d. mun minni en 5% í þorski," segir Friðrik. Hann segir því engin rök fyrir því að nota þá prósentutölu við ákvörðun álagsins.

Þá eru nýju reglurnar að sögn Friðriks brot á samningi á milli Íslands og Evrópusambandsins um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Í kjölfar þess samnings var þáverandi álag afnumið þann 1. september 2007. „Þar sem þetta ákvæði beinist aðeins að fiski sem seldur er ísaður á markaði erlendis má einnig leiða að því líkum að hér sé verið að beita tæknilegum hindrunum til þess að draga úr þeim viðskiptum. Það stangast á við bókun 9 við EES samninginn um fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB."

Friðrik segir ólíðandi fyrir útvegsmenn að standa frammi fyrir því aftur og aftur að settar séu reglur sem mismuni útgerðum. „Af hverju er til dæmis ekki fyrir löngu búið að leiðrétta slægingarstuðla, sem leiða til rangrar vigtunar og skráningar til aflamarks?  Það óréttlæti hefur lengi viðgengist. "