sunnudagur, 22. apríl 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ljósátuskip smíðað fyrir Aker BioMarine

15. febrúar 2017 kl. 13:52

Ljósátuskipið sem samið hefur verið um smíði á. (Mynd: Kystmagasinet)

Kostnaðurinn við smíðina nemur rúmum 13 milljörðum ISK

Aker BioMarine í Noregi hefur samið um smíði á stóru verksmiðjuskipi til veiða og vinnslu á ljósátu sem veidd er í Suður-Íshafinu. Skipið verður 130 metra langt og er sérstaklega hugað að umhverfisvænni tækni við smíði þess. Veiðarnar sjálfar eru umhverfisvottaðar. Þeim er stjórnað frá skrifstofu fyrirtækisins í Montevideo í Úrúgvæ. 

Afurðirnar eru fóður fyrir eldisfisk og gæludýr, til manneldis, sem fæðubótaefni og í lyfjaframleiðslu. 

VARD gruppen í Noregi smíðar skipið. Smíðin hefst í maí næstkomandi og er gert ráð fyrir að henni ljúki í árslok 2018. Kostnaður við skipið fullbúið nemur einum milljarði norskra króna eða jafnvirði 13,4 milljarða íslenskra. 

Aker BiMarine gerir nú út tvö skip til veiða og vinnslu á ljósátu í Suður-Íshafinu, Antarctic Sea og Saga Sea og að auki flutningaskipið La Manche. 

Frá þessu er skýrt á vefsíðunni Kystmagasinet.no