sunnudagur, 9. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðna veiðist norðaustan Langaness

8. janúar 2018 kl. 11:45

Víkingur AK

Raunveruleg loðnuleit er ekki hafin

Nokkur fjöldi uppsjávarskipa er við loðnuveiðar norðaustan Langaness. Beitir NK fékk um 650 tonn í gær en fyrsta loðnan veiddist á þessu svæði síðastliðinn föstudag. Víkingur AK og Venus NK eru einnig á miðunum. Víkingur var að toga þegar haft var samband við Hjalta Einarsson skipstjóra. Hann sagði fremur rólegt yfir veiðunum.

„Það var eitthvað að sjá hérna í morgun en það var samt ekki mikill kraftur í þessu hjá okkur í fyrstu tveimur holunum,“ segir Hjalti sem var kominn með um 250 tonn. Í þessu litla hólfi norðaustan Langaness voru sjö bátar að veiðum. Venus og Víkingur höfðu áður reynt fyrir sér fyrir vestan land og urðu þar aðeins varir við loðnu.

„Okkur líst ágætlega á framhaldið. En loðnugöngurnar hafa verið sérstakar á undanförnum árum og við vitum í raun ekkert um hvernig þetta þróast. Við vonum bara að það komist kraftur í þetta.“

Hann sagði að skip Hafrannsóknastofnunar væru ekki lögð af stað til loðnuleitar. Auðvitað hefði það verið best upp á framhaldið að þau væru komin af stað.

„Í raun hefur ekkert verið leitað af neinu gagni. Menn hafa verið hérna í þessu svokallaða trollhólfi og reynt fyrir sér þar. Það hefur verið leiðindaveður hérna sem hefur að einhverju leyti sett strik í reikninginn. En veðrið er reyndar að lagast núna.“