mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnubrestur skarð í útgerðarmynstrið

Guðjón Guðmundsson
15. apríl 2019 kl. 16:00

Börkur NK togar á kolmunnamiðum vestur af Írlandi í síðasta mánuði. MYND/ÓLAFUR ÓSKAR STEFÁNSSON.

Uppsjávarflotinn heldur á kolmunna við Færeyjar

 Íslensku uppsjávarskipin eru að búa sig undir að hefja veiðar á kolmunna í færeyskri lögsögu eftir að heil loðnuvertíð fór forgörðum. Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK, segir loðnubrestinn mikið högg fyrir útgerð og sjómenn og að allt stefni í það að loðnuveiðar heyri sögunni til á Íslandsmiðum verði áfram stuðst við núverandi veiðireglu.

Eins og fleiri uppsjávarskip var Börkur við kolmunnaveiðar vestur af Írlandi í síðasta mánuði sem Hjörvar segir að hafi gengið alveg bærilega þrátt fyrir mislynd veður. Afraksturinn var tæplega 8.400 tonn á skipið. Í síðasta túrnum var svo dæmi sé tekið þriggja daga bræla og þurfti að leita vars.

Hefði stefnt í skrítið ár

Að lokinni vertíðinni þar suður frá var haldið heim og hófst þá biðtími en lítið bólaði á loðnunni. Hjörvar segir að sem betur fer hafi þó tekist að semja við Færeyingana. Hefði það ekki verið gert hefði stefnt í mjög skrítið ár hjá áhöfninni á Berki. En flotinn var byrjaður að tínast út í færeysku lögsöguna í byrjun viku og þar hafa kolmunnaveiðarnar jafnan gengið ágætlega. Veiðarnar þar hafa undanfarin ár yfirleitt hafist í kringum 10. til 15. apríl en í fyrra hófust þær 8. apríl hjá Berki.

„Við höfum auðvitað veitt megnið af okkar kolmunna í færeysku lögsögunni. Við fengum reyndar ágætan afla líka hérna á heimamiðum í júní og júlí í fyrra. En þegar loðnan dettur svona út kemur heilmikið skarð í útgerðarmynstrið. Oft eru engar veiðar hjá okkur júní því stefnan hefur verið sú að byrja aðeins seinna á síld og makríl upp á gæðin að gera. Ef það hefði ekki verið samið við Færeyingana núna hefði bæst ofan á þetta mánaðarlangt hlé til viðbótar.“

Hjörvar segir að loðnubrestinum fylgi að sjálfsögðu gríðarlegt tekjutap fyrir áhafnir uppsjávarskipanna. Hann bendir þó að þetta hafi gerst áður.

Erfitt að mæla nógu mikið

„Norðmenn sögðu okkur þegar við tókum upp þessa nýju aflareglu í loðnu að við gætum farið að undirbúa okkur undir það að loðnuveiðar legðust af í framtíðinni. Nú eru menn einfaldlega hræddir um að það sé að rætast. Það virðast vera endalausir fyrirvarar í þessari nýju aflareglu og það verður mjög erfitt að mæla nægilega mikið afl til þess að hægt sé að gefa út kvóta. Við höfðum stuðst við gömlu aflaregluna í 30 ár og það hefur ekki ennþá lukkast að drepa loðnuna. Við fáum líka þær fréttir að það sé óhemjumagn af loðnu í Barentshafi en þar er stuðst við sömu aflareglu frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu og enginn kvóti gefinn út. Norðmennirnir segja að nákvæmlega það sama verði upp á teningnum hjá okkur, að loðnuveiðar leggist af meðan menn haldi sig við þessa aflareglu.“

Fyrir helgi funduðu yfirmenn á uppsjávarskipum með  fulltrúum frá Fiskistofu um tilkynningar og mælingar og svo með fulltrúum Hafró um loðnuvertíð sem aldrei varð. Þar kom fram að fínasta hrygning virðist hafa farið fram og mikið vart við loðnu víða. Fréttist að að mikil loðna hefði komið inn í Breiðafjörðinn nýlega.

Í fyrra sótti uppsjávarflotinn makrílinn talsvert út úr íslenskri lögsögu enda hófust veiðar almennt með seinna móti. Mun minna var af makríl við suðausturlandið en mörg ár þar á undan og auk þess hefur verið tilhneiging að hefja veiðar síðar til að hámarka verðmætin. Skipstjórar margir hafi áhyggjur af því að of mikil seinkun á veiðunum geti leitt til þess að menn missi makrílinn út úr Smugunni og þeim svæðum sem Íslendingar geta veitt hann. En þar vegist líka á að hann sé vissulega betri vara eftir því sem líður á sumarið og haustið.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 11. apríl síðastliðnum.