fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnukvótinn aukinn í 299 þúsund tonn

14. febrúar 2017 kl. 11:51

Loðna í lófa

Fimmföldun frá áður útgefnu aflamarki.

Nú að lokinni nýjustu loðnumælingu leggur Hafrannsóknastofnun til að kvóti vertíðarinnar verði 299 þúsund tonn. Áður hafði verið gefinn út 57.000 tonna kvóti þannig að kvótinn hefur verið rúmlega fimmfaldaður milli mælinga. Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir íslenskar loðnuútgerðir og sjávarútveginn í heild. 

Fréttatilkynning Hafrannsóknastofnunar fer hér á eftir:

Mælingar á stærð loðnustofnsins í febrúar 2017 Eins og kunnugt er bentu mælingar á loðnustofninum í september/október 2016 til þess að veiðistofninn á vertíðinni 2016/2017 væri lítill og í samræmi við samþykkta aflareglu var ákveðið að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar í janúar/febrúar 2017 gæfu tilefni til endurskoðunar.

Mælingar á stærð loðnustofnsins 11.-20. janúar síðastliðinn sýndu að stofninn væri töluvert stærri en mælingar haustsins höfðu bent til og ráðlagði Hafrannsóknastofnun þann 25. janúar að heildaraflamark vertíðarinnar yrði 57 þús. tonn.

Ný mæling

Í samvinnu við útgerðir loðnuskipa var ákveðið að mæla að nýju stærð stofnsins og fylgjast með göngum hans fyrir Norður- og Austurlandi. Fóru mælingarnar fram dagana 3. – 11. febrúar á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni ásamt uppsjávarskipinu Polar Amaroq en auk þess kom rs. Bjarni Sæmundsson að rannsókninni í 2 daga.

Rannsóknasvæðið náði yfir Austfjarðamið, Norðurmið sem og Vestfjarðamið.

Kynþroska loðna fannst víða á rannsóknasvæðinu og var hún bæði við landgrunnsbrúnina djúpt út af Norður- og Norðausturlandi en einnig var loðnu að finna grunnt s.s. norður af Þistilfirði og Melrakkasléttu en einnig við Skagafjörð. Magn kynþroska loðnu sem mældist var umtalsvert meira en í janúar og meðalþyngd há.  Ókynþroska loðna var mest áberandi vestarlega, eða út af Strandagrunni, en austan við Kolbeinseyjarhrygg var mjög lítið af ókynþroska loðnu.

815 þúsund tonn af kynþroska loðnu

Um 815 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í mælingunni og mæliskekkja (CV) var metin 0.18.  Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Í samræmi við ofangreinda aflareglu leggur Hafrannsóknastofnun til að heildaraflamark á vertíðinni 2016/2017 verði 299 þúsund tonn.