fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuleit lokið - ekkert meira fannst

12. mars 2019 kl. 12:15

Loðna (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Hafrannsóknastofnun fundar með útgerðinni í dag þar sem ákveðið verður hvort leit verður hætt.

Uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til hafnar í Reykjavík í gærkvöldi úr loðnuleiðangri, en áhöfnin á Polar hringkeyrði landið í leit sinni. Annað skip - Ásgrímur Halldórsson - hafði leitað ásamt Polar fyrir Suðurlandi fyrr í þessum mánuði. 

Austurfrétt greinir frá þessu.

Niðurstaðan er sú sama og í loðnuleitinni til þessa - engin viðbót hefur fundist við það magn loðnu sem áður hafði verið mælt og engin breyting er því á þeirri niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar að ómögulegt er að mæla með loðnuveiðum. Loðnubrestur virðist því staðreynd. 

Í viðtali Austurfréttar við Þorstein Sigurðsson, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, að farið verður yfir stöðu mála með loðnuútgerðum síðar í dag og ákveðið hvort reynt verði áfram eða leit hætt. Venjan er að loðnuveiðum ljúki upp úr miðjum apríl. Líklega er hluti göngunnar nú þegar búin að hrygna.

„Líkurnar verða minni og minni eftir sem líður á en það er ekki hægt að segja annað en allt hafi verið reynt,“ segir Þorsteinn í viðtalinu við Austurfrétt.

Loðna hefur verið veidd sleitulaust við Ísland frá árinu 1963 og skapað mikil verðmæti, bæði fyrir þjóðarbúið og þau samfélög treysta á uppsjávarveiðar. Ljóst er að fyrirtæki, einstaklingar og sveitarfélög verða af miklum tekjum.

Um þetta fjölluðu Fiskifréttir í síðustu viku - eins og má lesa hér.