mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loftslagsbreytingar: Fiskistofnar leita í átt til pólanna

15. febrúar 2009 kl. 09:17

Þúsundir fisktegunda munu færast nær norðurpólnum annars vegar og suðurpólnum hins vegar á komandi árum vegna breytinga á sjávarhita og straumum af völdum loftslagshlýnunar. Meðal þessara tegunda á norðurhveli jarðar eru þorskur, síld, koli og rækja. Í kringum árið 2050 kann að verða helmingi minna af þorski úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna en nú er, svo dæmi sé tekið.

Þetta kemur fram í skýrslu vísindamanna sem birt er í tímaritinu Fish and Fisheries og lögð var fram á ársfundi vísindasamtakanna AAAS í Chicago.Sjávarlíffræðingar notuðu tölvulíkan til þess að spá fyrir um framtíð 1.066 nytjafisktegunda í öllum heimshöfum.

Talið er að áhrif loftslagsbreytinga á fjölbreytileika lífsins í hafinu verði gríðarmikil. Að meðaltali muni lífverurnar í hafinu færa sig um 40 kílómetra nær pólunum á hverjum áratug. Jafnframt muni nýjar tegundir gera sig heimakomnar í nýju umhverfi sem haft geti alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.

Bent er á að þessar breytingar geti nýst vel fiskimönnum í löndum t.d. á norðlægari slóðum en að sama skapi minnki afli í námunda við miðbaug heims. Þrjátíu og þrjár þjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku eru taldar sérstaklega viðkvæmar fyrir loftslagsbreytingunum að þessu leyti og margar þeirra reiði mikið á fisk til viðurværis. Frá þessu er skýrt á fréttavef BBC.