miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loks viðrar til veiða á kolmunnamiðunum

19. mars 2009 kl. 12:48

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á kolmunnamiðunum djúpt suður af landinu. Lundey NS og Ingunn AK komu á veiðisvæðið í gær og Faxi RE ætti að geta hafið veiðar fljótlega. Gott veður er á veiðisvæðinu og er það góð tilbreyting eftir það hamfaraveður sem skipin hrepptu í síðustu veiðiferð.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hóf áhöfnin á Lundey NS kolmunnaveiðarnar í gærmorgun og var aflinn kominn í um 670 tonn í tveimur holum nú snemma í morgun. Ingunn AK kom heldur seinna á miðin en skipið er komið með um 700 tonna afla eftir tvö hol.

,,Skipin eru nú heldur norðar en í síðustu viku eða um 270 sjómílur norðvestur af Írlandi og um 145 sjómílur suðvestur af Rockall. Samkvæmt upplýsingum frá skipstjórunum hefur veiðin víst verið frekar dræm á morgnana síðustu daga en það hefur svo lifnað yfir henni eftir því sem liðið hefur á daginn. Veðurspáin er þokkaleg og þetta lítur því ágætlega út,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson á heimasíðu HB Granda.

Það, sem af er árinu, hafa skip HB Granda komið með um 8.500 tonn af kolmunna að landi. Eftirstöðvar kolmunnakvóta félagsins eru því um 15.800 tonn.