sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðna: 40% samdráttur útflutningsverðmæta

6. mars 2008 kl. 11:29

Þótt loðnuvertíðin í ár verði aðeins hálfdrættingur á við vertíðina í fyrra varðandi veiðar er talið að útflutningsverðmæti loðnuafurða minnki ekki um meira en 40% og verði 6 milljarðar króna.

Ástæðan er sú að hærra hlutfall loðnunnar hefur farið í vinnslu verðmætari afurða en áður, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum, sérblaði Viðskiptablaðsins.

Talið er að framleiðsla á frystri loðnu fyrir markað í Austur-Evrópu gæti orðið um 30 þúsund tonn. Til samanburðar má nefna að á síðustu vertíð nam framleiðslan 50-55 þúsund tonnum.

Í fyrra voru fryst um 8 þúsund tonn af loðnu fyrir Japansmarkað hér á landi en talið er að framleiðslan í ár gæti orðið 5-6 þúsund tonn. Miðað við að unnin verði hrogn úr um 100 þúsund tonnum af loðnu gæti framleiðslan orðið um 10 þúsund tonn ef vel gengur. Á síðasta ári fluttu Íslendingar út rúmlega 14 þúsund tonn af hrognum.