þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnu vart undan suðurströndinni

20. febrúar 2009 kl. 12:09

Loðnu hefur orðið vart á tveimur svæðum við loðnumælingar við suðurströndina undanfarið. Hjá Hafrannsóknastofnun er verið að vinna úr gögnum og búist er við niðurstöðu í dag, að því er ríkisútvarpið skýrir frá.

Skipstjóri Glófaxa frá Vestmannaeyjum segist hafa orðið var við loðnuflekk við Dyrhólaey í fyrrakvöld. Lóðningin hafi verið fjörutíu og fimm metra þykk á um þrettán kílómetra kafla. Í framhaldi fór Börkur, skip Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, til mælinga á svæðinu í gær. Gögn frá mælitækjum skipsins hafa verið send um gervihnattanetsamband til Hafrannsóknarstofnunar þar sem þau eru nú til skoðunar.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki, segist hafa orðið var við tvær góðar lóðningar. Annars vegar á svæðinu milli Dyrhólaeyjar og Vestmannaeyja. Hins vegar austur af Vík í Mýrdal þar sem meira hafi verið af loðnu en á hinu svæðinu. Nokkur skip eru nú við loðnuveiðar undan Reykjanesi. Þar á meðal Aðalsteinn Jónsson frá Eskifirði. Í morgun var unnið að loðnufrystingu um borð en skipið á eftir um 800 tonn af rannsóknakvótanum.

Ásgeir Gunnarsson, útgerðarstjóri Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði, segir að sínir menn um borð í Ásgrími Halldórssyni hafi hins vegar ekkert orðið varir við loðnu undanfarið, en þeir hafa leitað frá Hornafirði vestur að Reykjanesi. Nú verði haldið á gulldepluveiðar sem þó hafi minnkað síðustu tíu daga en tilraunaveiðar eru leyfilegar til 1. mars.

Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar, hefur legið við bryggju í Vestmannaeyjum frá því á þriðjudag.