mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuát makríls í 8,3°C heitum sjó

24. júlí 2009 kl. 09:46

Fréttin um loðnuát makrílsins, sem birtist á heimasíðu HB Granda sl. mánudag, hefur vakið töluverða athygli enda eru miklir hagsmunir í húfi. Ljóst er að makríll er farinn að ganga í gríðarlegu magni á Íslandsmið og vart hefur orðið við þessa fisktegund allt í kringum landið.

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun sagði í samtali við ríkisútvarpið að fréttin um loðnuát makrílsins kæmi mönnum nokkuð á óvart því loðnan væri hánorrænn fiskur sem héldi sig í svölum og köldum sjó en makríllinn væri hlýsjávarfiskur sem gengi yfirleitt ekki að verulegu ráði yfir í sjó sem væri kaldari en 8-9 gráður. Makríllinn gæti þó farið inn í kaldari sjó en Sveinn sagðist ekki hafa trú á að hann héldi sig þar lengi.

Í frétt á heimasíðu HB Granda í dag segir að sjávarhitinn á umræddu veiðisvæði hafi verið 8,3°C.

Í ljósi þess að makríll fór ekki að ganga í verulegum mæli inn í íslenska landhelgi fyrr en sumarið 2007 er lítið vitað um hegðunarmynstur hans, að sögn Sveins. „Ég yrði mjög þakklátur ef að þau skip sem yrðu vör við loðnu í makríl myndu senda okkur sýni ásamt upplýsingum hvar þetta veiðist og um sjávarhita á veiðislóðinni,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson.

Sjá nánar á heimasíðu HB Granda, HÉR