föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuleit hefst um helgina

2. janúar 2009 kl. 17:28

veiðiskipin með sambærilegan búnað og rannsóknaskipið

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson og loðnuskipin Börkur NK, Faxi RE og Lundey NS, halda til loðnuleitar núna um helgina. Veiðiskipin eru með tækjabúnað sem gerir þeim kleift að mæla loðnu með sambærilegum hætti og rannsóknaskipið og senda gögnin milli skipa.

,,Þetta er áhugaverð tilraun. Menn binda vonir við að svona samstarf muni leiða til þess að leit og mælingar verði markvissari þegar fram líða stundir,” sagði Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við Fiskifréttir. Skipin munu leita loðnu á hefðbundnum slóðum fyrir norðvestan og norðan landið og alveg austur fyrir land.

Sem kunnugt mældust aðeins 270 þúsund tonn af hrygningarloðnu í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar seint á nýliðnu ári sem þýddi að ekki var grundvöllur fyrir útgáfu kvóta, en reglan er sú að skilja þarf eftir 400 þúsund tonn í sjónum til hrygningar.