mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuleit heldur áfram en ekkert nýtt fundist

17. febrúar 2009 kl. 14:41

Ekkert nýtt hefur bæst við mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar á loðnustofninum síðustu daga, en leit er haldið áfram. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nýkomið í land, Kap II VE lauk leit úti fyrir Vestfjörðum í gær eftir að hafa farið vítt og breitt um svæðið án árangur og nú er verið að undirbúa leit tveggja veiðiskipa sem leggja eiga af stað í kvöld.

,,Skipin tvö eru Börkur NK og Ásgrímur Halldórsson SF, en annað mun leita grunnt og hitt djúpt á svæðinu frá Suðausturlandi og vestur úr, en höfuðáherslan verður lögð á svæðið vestan við Ingólfshöfða,” sagði Þorsteinn Sigurðsson fiskifræðingur og sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir og bætti því við að eitthvað fleira væri í spilunum sem unnið yrði úr.

- Hvernig hefur leit verið háttað síðustu daga?

,,Árni Friðriksson hefur sem kunnugt er verið við loðnumælingar úti fyrir Suðurlandi að undanförnu og var kominn vestur í Grindavíkurdýpi þegar hann varð að hætta við í nótt vegna brælu. Síðan höfum við notað siglingar skipa til og frá miðunum til þess að glöggva okkur betur á ástandinu. Þótt ekki hafi verið um skiplagða leit skipanna að ræða hafa þau hagað siglingaleiðum sínum þannig að þau hafa fylgst vel með.

Þá hefur maður frá Hafrannsóknastofnun verið um borð í þremur veiðiskipum, fyrst Berki og Hákoni og nú Lundey, til þess að bera saman það loðnumagn sem við mælum og það magn sem skipstjórarnir kasta á, með það að markmiði að reyna að nálgast mat hvers annars, en túlkun okkar og skipstjóranna hefur ekki alltaf farið saman eins og dæmin sanna,” sagði Þorsteinn.

- Teljið þið að seinni hluti göngunnar sem mæld var úti fyrir Austfjörðum í janúar sé komin suður fyrir land?

,,Fréttir frá togurum fyrir austan gefa til kynna að loðna þar fari mjög minnkandi. Við höfum séð dreif og ryk víða þannig að við teljum að hún hafi ekki gengið í þéttum göngum heldur mjatlast inn í fjörurnar smám saman.”

- Eru þið orðnir vondaufari en áður um að meiri loðna finnist?

,,Það er náttúrlega kominn sá tími að líkurnar minnka með degi hverjum. Menn horfa núna á vestursvæðið sem líklegasta svæðið til að finna meiri loðnu enda erum við búnir að leitað djúpin úti fyrir Suðurlandi töluvert meira en í fyrra án árangurs,” sagði Þorsteinn Sigurðsson.

Því má svo bæta við að fremsti hluti loðnugöngunnar er nú kominn vestur fyrir Krísuvíkurbjarg.